Spurs aftur á sigurbrautina

Tracy McGrady hjá Detroit með boltann en C.J. Watson og …
Tracy McGrady hjá Detroit með boltann en C.J. Watson og Ronnie Brewer hjá Chicago hafa gætur á honum í leik liðanna í nótt. Reuters

San Antonio Spurs komst strax aftur á sigurbraut í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt og Chicago Bulls sigraði Detroit Pistons á útivelli í framlengdum spennuleik.

Spurs hefur nú unnið 26 af fyrstu 30 leikjum sínum en sigurganga liðsins var stöðvuð í Orlando um jólin. Argentínumaðurinn Manu Ginobili og franski bakvörðurinn Tony Parker voru í aðalhlutverki í sigri á Washington Wizards í nótt, 94:80. Ginobili skoraði 21 stig og Parker skoraði 20 og átti 14 stoðsendingar. Nú á Spurs framundan uppgjör við meistara Lakers aðra nótt.

Chicago hefur mikið tak á grönnum sínum í Detroit og vann þá í níunda skiptið í röð. Staðan var 85:85 eftir venjulegan leiktíma en Chicago knúði fram sigur í framlengingunni, 95:92. Carlos Boozer var í aðalhlutverki og skoraði 31 stig, þar af fjögur í framlengingunni. Detroit hafði náð að jafna metin með því að skora síðustu sjö stigin í venjulegum leiktíma og Charlie Villanueva jafnaði þá á lokasekúndunni. Tayshaun Prince skoraði 17 stig fyrir Detroit.

Úrslitin í nótt:

LA Clippers - Phoenix 108:103
Cleveland - Minnesota 97:98
Detroit - Chicago 92:95 (eftir framlengingu)
Indiana - Memphis 90:104
New Orleans - Atlanta 93:86
San Antonio - Washington 94:80
Denver - Philadelphia 89:95

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert