Wade fór á kostum í Houston

Dwyane Wade horfir á eftir boltanum í leik Miami og …
Dwyane Wade horfir á eftir boltanum í leik Miami og Houston í nótt. Reuters

Dwyane Wade skoraði 45 stig í nótt þegar Miami Heat lagði Houston Rockets á útivelli, 125:119, í NBA-deildinni í körfuknattleik og þrenningin magnaða í liðinu gerði alls 86 stig í leiknum.

Þetta er hæsta skorið hjá Wade í vetur og tíundi útisigurinn hjá Miami í röð. Chris Bosh skoraði 21 stig og LeBron James gerði 20 stig, átti 9 stoðsendingar og tók 6 fráköst. Þetta var hinsvegar í fyrsta skipti í 17 leikjum sem Miami fékk á sig 100 stig í leik og þjálfarinn, Eric Spoelstra, sagði eftir leikinn: "Ég hata svona leiki!".

„Einn af boltastrákunum spurði mig fyrir leikinn hvort ég myndi skora 40 stig og ég svaraði að ég yrði ekki einu sinni nálægt því," sagði Wade í leikslok. Miami setti félagsmet með því að vinna sinn 15. sigur í 16 leikjum í einum mánuði.

Detroit lagði Boston, 104:92, þar sem Tracy McGrady skoraði 21 stig fyrir Detroit og Paul Pierce 33 fyrir Boston. Lið Boston er í meiðslavandræðum því Rajon Rondo missti af leiknum og Kevin Garnett fór meiddur af velli í fyrsta leikhluta.

Lamar Odom skoraði 24 stig fyrir LA Lakers sem vann New Orleans Hornets á útivelli, 103:88.

Úrslitin í nótt:

Atlanta - Golden State 103:93
Charlotte - Cleveland 101:92
Washington - Indiana 104:90
Detroit - Boston 104:92
Minnesota - Denver 113:119
New Orleans - LA Lakers 88:103
Oklahoma City - New Jersey 114:93
Houston - Miami 119:125
Phoenix - Philadelphia 110:123
Sacramento - Memphis 100:98
LA Clippers - Utah 95:103

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert