Meistarar Los Angeles Lakers fengu háðulega útreið á heimavelli í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. Memphis Grizzlies sótti meistarana heims og fagnaði 19 stiga sigri 104:85 í Staples Center höllinni.
Rudy Gray skoraði 27 fyrir Memphis og Zach Randolph 21 en hjá Lakers var Kobe Bryant atkvæðamestur með 28 stig en þetta var fjórða tap liðsins í síðustu sex leikjum.
,,Þetta var virkilega léleg frammistaða hjá liðinu í kvöld, bæði í vörn og sókn og við vorum gjörsamlega yfirspilaðir,“ sagði Phil Jackson þjálfari Lakers eftir leikinn.
Boston lagði Toronto Raptors á útivelli 93:79 þar sem Paul Pierce skoraði 30 stig fyrir Boston og Rayn Allen 23. DeMar DeRozan var atkvæðamestur í liði heimamanna með 27 stig.
Dallas komst á sigurbraut á ný en liðið vann Cleveland, 105:94. Shawn Marion skoraði 22 stig fyrir Dallas og DeShawn Stevenson 21. Dallas lék án Þjóðverjans Dirk Nowitzki fjórða leikinn í röð en fyrir leikinn hafði Dallas tapað þremur leikjum í röð.
Úrslitin í nótt:
LA Lakers - Memphis Grizzlies 85:104
Toronto - Boston 79:93
Dallas - Cleveland 105:94
New York - Indiana 98:92
Portland - Houston 100:85
Atlanta - LA Clippers 107:98
Sacramento - Phoenix 94:89