Keflvíkingar unnu stórsigur á toppliði Snæfells, 112:89, í stórleik kvöldsins í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Iceland-Expressdeildinni. Grindvíkingar unnu KFÍ á Ísafirði, 74:64, og náðu Snæfelli að stigum á toppnum. KR lagði Hamar í Vesturbænum, 97:87.
Tom Sanders skoraði 30 stig fyrir Keflavík og Hörður Axel Vilhjálmsson 17. Jón Ólafur Jónsson skoraði 28 stig fyrir Snæfell og Pálmi Freyr Sigurgeirsson 20. Keflavík var yfir í hálfleik, 62:44.
KR var yfir í hálfleik gegn Hamri, 59:48. Marcus Walker skoraði 19 stig fyrir KR, Pavel Ermolinskij 17, Brynjar Björnsson 16 og Fannar Ólafsson 16. Þeir Svavar Pálsson og Kjartan Kárason gerðu 13 stig hvor fyrir Hamar.
KFÍ var yfir í hálfleik gegn Grindavík, 38:33, en Suðurnesjaliðið sneri blaðinu við. Ryan Pettinella skoraði 17 stig og Páll Axel Vilbergsson 16 fyrir Grindavík en hjá KFÍ var Marco Milicevic með 16 stig og Craig Schoen 13.
Snæfell og Grindavík eru í tveimur efstu sætum deildarinnar með 22 stig hvort á toppi deildarinnar en Keflavík og KR eru nú með 18 stig í þriðja og fjórða sætinu.