Nýr leikmaður hefur verið ráðinn til karlaliðs Snæfells í körfuknattleik til að styrkja liðið enn frekar. Zeljko Bojovic heitir kappinn og kemur frá Serbíu og er fæddur 1981.
Bojovic er 200 cm hár og hefur leikið víða í Evrópu við góðan orðstír, er sagður duglegur og alhliða leikmaður sem kemur væntanlega til með að nýtast Snæfelli vel á lokasprettinum á Íslandsmótinu.
Bojovic lék síðast í Rúmeníu með Timisoara. Hólmarar binda vonir við að leikmaðurinn verði kominn í næsta leik liðsins þegar Snæfell fer í heimsókn til Grindavíkur í toppslag næsta fimmtudagskvöld, 10. febrúar.