Denver skoraði 16 síðustu stigin í viðureign sinni við Boston Celtics í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt og vann leikinn með 14 stiga mun, 89:75, á heimavelli. Í hinni viðureign deildarinnar í nótt tapaði stjörnulið Miami Heat fyrir Chicago á útivelli, 93:89.
Sigur Denver í nótt er sá annar í röð eftir að liðið missti Carmelo Anthony úr herbúðum sínum. Kenyon Martin var stigahæstur með 18 stig og Wilson Chandler var næstur með 16 stig fyrir Denver. Paul Pierce skoraði 17 stig fyrir Boston og Kevin Garnett 14.
Leikmenn Chicago léku frábærlega í þriðja leikhluta gegn Miami og unnu 27:14. Þar með komust þeir inn í leikin aftur og úr varð spennandi lokaleikhluti. Derrick Rose skoraði 26 stig, tóks 5 fráköst og átti sex stoðsendingar og Luol Deng skoraði 20 stig, þar af afar mikilvæga þriggja stiga körfu þegar skammt var til leiksloka.
Þetta var fimmti sigur Chicago í síðustu sex viðureignum.
Dwyane Wade skoraði 34 stig fyrir Miami og tók átta fráköst. LeBron James gerði 29 stig en Chris Bosh náði sér alls ekki á strik og skoraði aðeins sjö stig og var með afleita skotnýtingu.