Los Angeles Lakers, NBA-meistararnir í körfubolta, gerðu sér lítið fyrir og skelltu toppliðinu San Antonio Spurs á útivelli í nótt, 99:83, og þjálfarinn reyndi Phil Jackson sagði að sínir menn hefðu spilað sinn besta leik í vetur.
„Við spiluðum virkilega vel, betur en nokkru sinni áður, gegn virkilega sterkum mótherjum. Við komum þeim í opna skjöldu og byrjuðum leikinn geysilega vel," sagði Jackson við fréttamenn að leik loknum. Þetta var aðeins 12. ósigur San Antonio í 63 leikjum í deildinni í vetur en staðan var orðin 34:13 eftir fyrsta leikhluta.
„Þetta var auðveldur sigur hjá þeim, samkeppnin var enginn. Maður býst ekki við því að lenda 20 stigum undir í fyrsta leikhluta. Þeir spiluðu af krafti en við biðum átekta og það var munurinn sagði Manu Ginobili, argentínski bakvörðurinn hjá Spurs.
Kobe Bryant skoraði 26 stig fyrir Lakers og Pau Gasol 21. Gary Neal var stigahæstur hjá Spurs með 15 stig.
Miami Heat tapaði eina ferðina enn, nú 86:87 fyrir Chicago Bulls á heimavelli. Derrick Rose skoraði 27 stig fyrir Chicago en LeBron James 26 fyrir Miami. Þeir James og Dwyane Wade hittu ekki í körfuna úr færum sem þeir fengu á síðustu andartökum leiksins. Miami hefur nú aðeins unnið einn leik af tíu gegn fimm efstu liðum deildarinnar í vetur.
Úrslitin í nótt:
Miami - Chicago 86:87
San Antonio - LA Lakers 83:99
Detroit - Washington 113:102
Philadelphia - Golden State 125:117 Eftir framlengingu.
Atlanta - New York 79:92
Cleveland - New Orleans 81:96
Oklahoma City - Phoenix 122:118 Eftir framlengingu.
Dallas - Memphis 103:104
Milwaukee - Boston 83:89