Margrét Kara Sturludóttir telur lið Íslandsmeistara KR vera svipað sterkt og það var fyrir ári þegar liðið fór alla leið og hampaði titlinum. Önnur lið í deildinni séu hins vegar sterkari í ár en í fyrra að hennar mati.
KR mætir Keflavík í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta og fer fyrsti leikurinn fram í Keflavík á morgun klukkan 16. Þessi lið áttust við í bikarúrslitunum á dögunum og þar hafði Keflavík betur. Liðin mættust aftur nokkrum dögum síðar og aftur sigraði Keflavík eftir dramatíska lokamínútu.
Kara segir KR-liðið vera á góðu róli. Það hafi slípast vel til eftir að Chazny Morris og Signý Hermannsdóttir bættust við hópinn um áramót. Sjálf er hún í banni og spilar ekki með í fyrstu tveimur leikjum liðanna.