Stjarnan vann auðveldan sigur á Grindavík 91:74 í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni Iceland Express deildar karla. Liðin þurfa því að mætast í oddaleik í Grindavík á miðvikudaginn til að fá úr því skorið hvort liðið kemst í undanúrslit. KR er komið þangað eftir sigur í Njarðvík í kvöld, 96:80.
Þriðji leikhluti var afar góður hjá Stjörnunni og unnu þeir hann með 10 stigum.
Renato Lindmets var stighæstur heimamanna með 29 stig og Justin Shouse skoraði 23. Hjá Grindavík var stigahæstur Páll Axel Vilbergsson en hann var með 27 stig, aðrir leikmenn liðsins náðu sér engan veginn á strik. Það verður heldur ekki tekið af Stjörnunni að þeir spiluðu frábæra vörn.
Viðtöl við leikmenn eru væntanleg seinna í kvöld hér á mbl.is.
KR sigraði Njarðvík, 96:80, og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitunum.
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér að neðan.
20:42 75:62 - Grindavík hefur heldur betur komið til baka og skorað síðustu níu stigin. Geta þeir breytt því sem virtist óumflýjanlegt áðan. Það verður að koma í ljós eftir að liðin hafa spilað 3 mínútur og 44 sekúndur til viðbótar. Renato verður ekki meira með Stjörnunni í þessum leik en hann er kominn með 5 villur.
Njarðvík - KR, 61:76.
20:36 75:53 - Þó það séu enn rúmar 6 mínútur eftir af leiknum þá eru úrslitin nánast ráðin hér í Garðabænum. Sex mínútur í körfubolta eru reyndar langur tími en eitthvað þarf að fara að gerast strax hjá Grindavík.
Njarðvík - KR, staðan er 54:71, KR greinilega í góðum málum.
20:30 67:51 - Þriðja leikhluta er lokið. Þakið ætlaði hreinlega að rifna af kofanum hér rétt í þessu þegar Renato Lindmets tróð boltanum í körfuna í hraðaupphlaupi. Renato er búinn að skora 28 stig fyrir Stjörnuna. Ólafur Ólafsson svaraði í næstu sókn á eftir fyrir Grindavík með ekki síður glæsilegri troðslu við minni fögnuð heimamanna en fjölmargir stuðningsmenn Grindavíkur létu vel í sér heyra. Það er fátt sem bendir til annars en að Stjarnan sé að tryggja sér oddaleik í Grindavík.
Njarðvík KR, staðan er 54:60 en ef KR heldur þetta út eru þeir komnir í undanúrslit. Það er þó nóg eftir í Njarðvík en það eru um 4 mínútur eftir af 3. leikhluta.
20:20 54:42 - Þriðji leikhluti er hálfnaður og staðan hefur ekki skánað mikið fyrir Grindavík.
20:15 50:38 - Stjarnan byrjar seinni hálfleik af krafti líkt og þeir enduðu þann fyrri. Helgi Jónas þjálfari Grindavíkur neyðist til að taka leikhlé eftir aðeins 2 mínútur.
Staðan er 46:51 í hálfleik í Njarðvík þar sem heimamenn taka á móti KR
19:59 Það er kominn hálfleikur í Garðabænum og Stjarnan leiðir með 6 stigum gegn Grindavík 44:38. Stigahæstur hjá Stjörnunni er Renato Lindmets með 18 stig en næstur kemur Justin Shouse með 12. Hjá Grindavík er Páll Axel sem fyrr með flest stig þeirra eða 17. Vörn Stjörnunnar er frábær og til að mynda hefur skotklukka Grindavíkur einu sinni runnið út án þess að þeir kæmu skoti á körfuna.
Staðan er 47:42 KR í vil þegar um 2 mínútur eru eftir af fyrri hálfleik.
19:56 Staðan er 44:38 fyrir Stjörnuna og Grindavík tekur leikhlé. 1 mínúta og 9 sekúndur eftir af fyrri hálfleik.
19:50 38:35 - Grindavík náði að komast þremur stigum yfir á milli þess sem stöðurnar birtast hér en Stjarnan hefur aftur náð frumkvæðinu.
Staðan í Njarðvík er Njarðvík 28, KR 36.
19:45 32:31 - Það er mikil barátta í báðum liðum hér í kvöld. Stjarnan er þó að taka fleiri fráköst en Grindavík það sem af er leik. Það kemur þó ekki mikið að sök.
KR leiðir gegn Njarðvík með 5 stigum 26:31 eftir 1. leikhluta.
19:37 26:22 - Stjarnar leiðir eftir fyrsta leikhluta með fjórum stigum. Vörn Stjörnunnar er góð og Grindavík á erfitt að finna leiðir framhjá henni ef undan er skilinn Páll Axel Vilbergsson sem er búinn að skora 14 stig.
Njarðvík - KR staðan er 20:22.
19:34 22:20 er staðan hjá Stjörninni og Grindavík. Njarðvík er undir gegn KR 17:18.
19:27 13:13 - Grindavík tekur leikhlé þegar þrjár mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta enda Stjarnan búin að éta upp forskotið sem þeir höfðu. Það er hart barist í leik þessara liða í kvöld.
Njarðvík - KR staðan er 3:5.
19:21 5:12 - Páll Axel Vilbergsson er mættur til leiks hjá Grindavík og setti niður tvö þriggja stiga skot og Ólafur Ólafsson kom þeim svo í 12 stig með fallegri troðslu í hraðaupphlaupi. Ekkert stig hefur verið skorað í Njarðvík ennþá en hann hófst eitthvað seinna en leikur Stjörnunnar og Grindavíkur.
19:18 5:4 - Þetta er byrjað hér í Ásgarði í Garðabæ, fyrirliðinn Fannar Helgason skoraði fyrstu stig Stjörnunnar þegar hann setti niður fallegan þrist.