Þrír oddaleikir fara fram í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla í kvöld. Þar áttust við Grindavík og Stjarnan, Snæfell og Haukar, Keflavík og ÍR. Stjarnan, Snæfell og Keflavík komust áfram í undanúrslit. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
45. mín: LEIK LOKIÐ. Keflavík tókst að merja sigur á ÍR eftir framlengingu 95:90. Keflavík hafði undirtökin í framlengingunni en ÍR tókst að hleypa spennu í leikinn á ný með tveimur þriggja stiga körfum á stuttum tíma. Ótrúlegur sigur hjá Keflavík sem var undir mest allan síðari hálfleik og var 5 stigum undir þegar um 50 sekúndur voru eftir af leiknum.
40. mín: Venjulegum leiktíma lokið. Staðan er 78:78 í Keflavík. Heimamönnum tókst að éta niður forskot ÍR á lokamínútunum og því þarf að framlengja.
40. mín: LEIK LOKIÐ. Snæfell sigraði Hauka nokkuð örugglega 87:73 eftir jafnan fyrri hálfleik.
40. mín: LEIK LOKIÐ. Þorleifur klikkaði á vítalínunni og leiktíminn rann út. Þriggja stiga sigur Stjörnunnar 69:66 sem er komin í undanúrslit í fyrsta skipti í sögu félagsins.
40. mín: Staðan er 69:66 fyrir Stjörnuna. Shouse setti bæði skotin niður. Sókn Grindvíkinga var slök en eftir misheppnað skot náði Þorleifur frákastinu og fer á vítalínuna fyrir Grindavík þegar tæpar 2 sekúndur eru eftir. Vonin er lítil fyrir Grindavík.
40. mín: Staðan er 67:66 fyrir Stjörnuna og aðeins 15 sekúndur eru eftir. Shouse er á leið á vítalínuna fyrir Stjörnuna og Helgi Jónas þjálfari Grindavíkur tekur leikhlé.
39. mín: Staðan er 64:64 þegar um ein og hálf mínúta er eftir í Grindavík. Gríðarlega spennandi leikur og leikmönnum virðist nú fyrirmunað að skora en baráttan er ævintýraleg og dómararnir leyfa talsverða pústra. Stjarnan er með boltann. ÍR er yfir 70:62 þegar tæpar 5 mínútur eru eftir og Snæfell er yfir 80:64 þegar rúmar 4 mínútur eru eftir.
35. mín: Staðan er 62:60 fyrir Grindavík þegar fimm mínútur eru eftir. Grindvíkingar voru að komast yfir í fyrsta skipti í fyrsta skipti í langan tíma. Rosalegur leikur í Grindavík. Spennan er gríðarlega og stemningin á pöllunum er mögnuð en um helmingur áhorfenda er á bandi Stjörnunnar.
30. mín: Staðan er 65:56 fyrir ÍR í Keflavík þegar síðasti leikhlutinn er eftir. ÍR-ingar náðu mest tólf stiga forskoti og virðast vera að spila virkilega vel. Eru Keflvíkingar á leið í sumarfrí? Íslandsmeistararnir virðast vera komnir með ágæt tök á leiknum gegn Haukum og eru yfir 69:56 eftir þrjá leikhluta.
30. mín: Staðan er 56:55 fyrir Stjörnuna í Grindavík að loknum þriðja leikhluta. Stjarnan náði ellefu stiga forskoti um tíma í leikhlutanum en þá tóku Grindvíkingar til í vörninni hjá sér og átu forskotið niður. Mladen Soskic setti niður dýrmæta þriggja stiga körfu á lokasekúndu leikhlutans fyrir Grindavík og hefur skorað 16 stig.
24. mín: Staðan er 51:45 fyrir ÍR í Keflavík. Breiðhyltingar eru enn með frumkvæðið og virðist ganga ágætlega að halda aftur af Keflavíkurhraðlestinni. Snæfell er að slíta sig frá Haukum og er yfir 57:45.
22. mín: Staðan er 45:36 fyrir Stjörnuna. Frábær byrjun hjá Garðbæingum í síðari hálfleik. Jovan Zdravevski og Justin Shouse settur niður tvö þriggja stiga skot í röð og skyndilega er Stjarnan níu stigum yfir.
20. mín: Staðan er 34:39 fyrir Stjörnuna að loknum fyrsta leikhluta. Garðbæingar náðu undirtökunum undir lok fyrri hálfleiks og ætla greinilega að selja sig dýrt sem von er. ÍR er yfir í Keflavík 45:41 þegar liðin ganga til búningsherbergja. ÍR-ingar eru greinilega til alls líklegir. Suðurnesjaliðin þurfa að spýta í lófana ef þau ætla ekki að láta slá sig út á heimavelli. Haukarnir hafa staðið í Hólmurum og rúmlega það því þeir voru yfir eftir fyrsta leikhluta. Snæfell náði hins vegar að komast yfir og hefur naumt forskot að loknum fyrri hálfleik 46:42. Nonni Mæju og Pálmi Freyr Sigurgeirsson drógu vagninn og hafa skorað 10 stig hvor um sig.
15. mín: Oddaleikirnir lofa allir góðu, í það minnsta eru þeir allir í járnum eftir korter. Grindavík er stigi yfir 29:28 gegn Stjörnunni. Heimamenn hafa haft frumkvæðið en hafa ekki náð meira en fimm stiga forskoti. Í hinum tveimur leikjunum eru heimaliðin undir. ÍR er yfir í Keflavík 29:27 og nýliðar Hauka eru yfir gegn Íslandsmeisturum Snæfells 28:26. Gamla brýnið Eiríkur Önundarson heldur áfram að spila vel fyrir ÍR og hefur þegar skorað 10 stig.
14. mín: Óvænt staða í Stykkishólmi. Þar eru Haukar yfir 23:22 og voru einnig stigi yfir eftir fyrsta leikhluta 16:15.
10. mín: Staðan er 24:19 fyrir Grindavík að loknum fyrsta leikhluta. ÍR-ingar eru yfir í Keflavík en þar hefur lítið verið skorað. Staðan er 19:17 fyrir ÍR og fyrsta leikhluta er lokið. Ef eitthvað er að marka upplýsingarnar úr Hólminum þá er staðan þar 7:5 fyrir Hauka eftir fimm mínútna leik.
6. mín: Staðan er 17:16 fyrir Grindavík. Leikurinn byrjar mjög fjörlega og þriggja stiga körfunum rignir í Grindavík. Þetta gæti orðið frábær leikur.