Lið Miami er á góðu skriði í NBA-deildinni í körfuknattleik. Liðið vann í nótt Houston, 125:119, og var þetta fimmti sigur liðsins í röð og sá áttundi í síðustu níu leikjum liðsins.
LeBron James skoraði 33 stig fyrir Miami,tók 10 fráköst og átti 7 stoðsendingar. Chris Bosh kom næstur með 31 stig og 12 fráköst og Dwayne Wade setti 30 stig og tók 11 fráköst. Þetta er í fyrsta sinn í sögu Miami sem þrír leikmenn ná að skora 30 stig eða meira í sama leiknum.Kevin Martin var stigahæstur hjá Houston með 29 stig og Luis Scola skoraði 28.
Boston hafði betur gegn Minnesota á útivelli, 85:82, eftir að hafa komist í 31:13 eftir fyrsta leikhlutann. Paul Pierce skoraði 23 stig fyrir Boston og Kevin Garnett kom næstur með 13 stig en hann tók að auki 13 fráköst. Michael Beasley var atkvæðamestur hjá Minnesota með 28 stig.
Los Angeles Lakers vann öruggan sigur á New Orleans í Staple Center, 102:84. Kobe Bryant var eins og oft áður stigahæstur í liði Lakers en hann skoraði 30 stig. Pau Gasol kom næstur með 23 stig og hann hirti 16 fráköst. Þetta var 15. sigur meistaranna í síðustu 16 leikjum. Carl Landry var atkvæðamestur hjá New Orleans með 24 stig.
Úrslitin í nótt:
Miami - Houston 125:119
Minnesota - Boston 82:85
LA Lakers - New Orleans 102:84
Sacramento - Philadelphia 114:111 eftir framlengingu
Washington - Golden State 104:114
Dallas - Phoenix 91:83
Atlanta - Cleveland 99:83
Memphis - SA Spurs 111:104
Oklahoma - Portland 99:90