Stjarnan úr Garðabæ leikur til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta karla í fyrsta sinn. Stjörnumenn unnu Snæfell mjög örugglega í Stykkishólmi í kvöld, 105:88, og þar með einvígið 3:0 gegn Íslandsmeisturunum sjálfum.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
40. LEIK LOKIÐ með afar öruggum sigri Stjörnunnar. Lokatölur 88:105. Jovan Zdravevski skoraði 25 stig fyrir Stjörnuna, Renato Lindmets 22 og Justin Shouse 15. Zeljko Bojovic skoraði 19 stig fyrir Snæfell, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 13 og Sean Burton 13.
37. Stjarnan er á fleygiferð í úrslitaeinvígið og ljóst að Garðbæingar leggja meistara Snæfells 3:0. Staðan er 81:100 og þrjár mínútur eftir.
35. Staðan 74:97. Pálmi Freyr Sigurgeirsson fyrirliði Snæfells farinn af velli með fimm villur. Tveir lykilmenn úr leik hjá Íslandsmeisturunum og staðan á töflunni vonlítil.
34. Sean Burton hjá Snæfelli er rekinn úr húsi eftir að hafa fengið tvær tæknivillur..! Tímabilinu lokið hjá honum? Staðan 72:91.
33. Pálmi Freyr Sigurgeirsson hleypti smá lífi í leikinn með því að skora fyrstu sex stig fjórða leikhluta fyrir Snæfell. Hólmarar hafa minnkað muninn hratt og staðan er 72:87. Ekki er öll von úti. Justin Shouse hjá Stjörnunni er kominn með 4 villur.
30. Þriðja leikhluta lokið og staðan er 60:83. Afar örugg forysta Stjörnumanna og ljóst að þeirra leikur þarf að hrynja gjörsamlega í fjórða leikhluta til að Snæfell eigi minnstu von. Justin Shouse er kominn í gang á gamla heimavellinum og kominn með 15 stig fyrir Stjörnuna. Pálmi Freyr Sigurgeirsson fyrirliði Snæfells er kominn með 4 villur.
28. Staðan er 50:73 og Jovan Zdravevski er kominn með 20 stig fyrir Stjörnuna. Hólmarar eru á leið útúr keppninni.
25. Þriðji leikhluti hálfnaður og staðan er 40:64. Fannar Freyr Helgason er kominn með 14 stig fyrir Stjörnuna, eins og Renato Lindmets, en Fannar hefur auk þess tekið 6 fráköst, flest Garðbæinga.
23. Staðan er 36:59 og Stjarnan eykur því enn forskot sittt í upphafi síðari hálfleiks. Allt stefnir í að meisturum Snæfells verði feykt útúr keppninni í kvöld.
20. HÁLFLEIKUR. Staðan er 32:51. Útlitið er svart hjá Íslandsmeisturum Snæfells á heimavelli. Þeir eru 0:2 undir í einvíginu og með afar erfiða stöðu í hálfleik gegn frískum Garðabæingum. Jovan Zdravevski er með 17 stig fyrir Stjörnuna og Renato Lindmets 12. Zeljko Bojovic er með 13 stig fyrir Snæfell og Pálmi Freyr Sigurgeirsson 7. Stjarnan skoraði 30 stig gegn aðeins 9 stigum heimamanna í öðrum leikhluta.
18. Garðbæingar eru hreinlega að stinga af í Hólminum. Þeir hafa gert 23 stig gegn 2 í öðrum leikhluta og staðan er 25:44. Jovan Zdravevski er kominn í gang og búinn að skora 14 stig fyrir Stjörnuna og Renato Lindmets 12.
15. Annar hluti hálfnaður og Snæfell hefur enn ekki skorað stig í honum. Staðan er 23:34, þrettán stig Garðbæinga í röð.
13. Staðan er orðin 23:27 eftir að Stjarnan gerði fyrstu sex stigin í öðrum leikhluta. Hólmarar hafa enn ekki hitt ofaní körfuna eftir að hann hófst.
10. Fyrsta leikhluta er lokið í Stykkishólmi og staðan er 23:21, Snæfelli í hag. Zeljko Bojovic er með 10 stig og Sean Burton 5 fyrir Snæfell en Renato Lindmets er með 8 stig og Jovan Zdravevski 4 fyrir Stjörnuna.
8. Staðan er 19:16 og Zeljko Bojovic er með 10 stig fyrir Snæfell.
5. Snæfell er komið yfir í fyrsta sinn, 14:13, með 3ja stiga körfu frá Zeljko Bojovic, sem þar með hefur gert 7 stig fyrir Hólmara.
3. Stjarnan fer betur af stað og staðan er 6:11. Renato Lindmets er þegar kominn með 6 stig fyrir Garðbæinga.
Stjarnan vann fyrsta leikinn í Stykkishólmi á sunnudaginn, 75:73, og svo annan leikinn í Garðabæ á þriðjudagskvöldið. 93:87.
Byrjunarlið Snæfells: Zeljko Bojovic, Jón Ólafur Jónsson, Pálmi Freyr Sigurgeirsson, Ryan Amaroso, Sean Burton.
Aðrir leikmenn: Atli Rafn Hreinsson, Sveinn Arnar Davíðsson, Hlynur Hreinsson, Egill Egilsson, Kristján Andrésson, Daníel Kazmi, Emil Þór Jóhannsson.
Byrjunarlið Stjörnunnar: Jovan Zdravevski, Renato Lindmets, Daníel G. Guðmundsson, Justin Shouse, Fannar Freyr Helgason.
Aðrir leikmenn: Kjartan Atli Kjartansson, Marvin Valdimarsson, Dagur Kár Jónsson, Ólafur Aron Ingvason, Tómas Þórður Hilmarsson, Guðjón Lárusson, Magnús Guðmundsson.