KR Íslandsmeistari eftir sigur í Garðabæ

Íslandsmeistarar KR.
Íslandsmeistarar KR. mbl.is/Ómar Óskarsson

KR tryggði sér í kvöld Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla með öruggum sigri á Stjörnunni 109:95 í Ásgarði í Garðabæ í kvöld.  KR sigraði samtals 3:1 í úrslitarimmunni og varð því tvöfaldur meistari í ár en liðið sigraði Grindavík í bikarúrslitaleiknum fyrr í vetur.

40. mín: Leik lokið. KR sigraði og samanlagt 3:1 í úrslitarimmunni. 

36. mín: Staðan er 92:77 fyrir KR sem er með boltann og fjórar og hálf mínúta eftir. Hrafn þjálfari KR tekur leikhlé.

33. mín: Staðan er 88:66 fyrir KR og nú falla öll vötn í Frostaskjólið. Garðbæingar sýna engin merki þess að þeir séu líklegir til þess að vinna síðustu sjö mínúturnar með meira en 20 stiga mun. 

30. mín: Staðan er 83:62 fyrir KR þegar aðeins einn leikhluti er eftir.  KR er með fín tök á leiknum og þeirra eina áhyggjuefni er það að Pavel Ermolinskij og Finnur Magnússon eru með 4 villur og Fannar Ólafsson og Hreggviður Magnússon eru með 3 villur. Marcus Walker gæti nú líklega séð um að landa sigrinum upp á eigin spýtur. Hann er með 33 stig og er búinn að skora nokkrar ótrúlegar körfur, þar á meðal var flautukarfa í lok leikhlutans.

26. mín: Staðan er 70:55 fyrir KR. Eftir að Stjarnan minnkaði muninn niður í 11 stig þá skoraði Marcus nokkur Walker tvær þriggja stiga körfur í röð fyrir KR. 

24. mín: Staðan er 61:50 fyrir KR. Jovan er búinn að skora 10 stig fyrir Stjörnuna í upphafi síðari hálfleiks og fagnar hverri körfu með miklum tilþrifum. Ekki veitir af því KR-ingar byrjuðu þriðja leikhluta með látum og náðu 18 stiga forskoti. 

20. mín: Staðan er 54:40 fyrir KR að loknum fyrri hálfleik.  KR-ingarnir eru vel stemmdir og það verður verðugt verkefni fyrir Stjörnumenn að knýja fram oddaleik. Stjarnan minnkaði muninn niður í 38:42 en þá komu fimm stig í röð frá Hreggviði Magnússyni og fleiri körfur KR-inga fylgdu í kjölfarið og alls urðu stigin 12 í röð.  Fannar Freyr Helgason, Jovan Zdravevski og Justin Shouse eru atkvæðamestir hjá Stjörnunni með 8 stig hver. Finnur Magnússon er stigahæstur KR-inga með 16 stig og Marcus Walker er kominn með 15.  

17. mín: Staðan er 42:33 fyrir KR. Garðbæingar verða að vera skynsamir í sóknaraðgerðum sínum því KR-ingar eru fljótir að refsa þeim og auka við forskotið þegar Stjarnan reynir erfið skot. Miðað við þennan leik þá er eina vitið fyrir Stjörnumenn að dæla boltanum inn í teiginn á Lindmets. KR-ingar virðast ekki geta stoppað hann.

14. mín: Staðan er 35:30 fyrir KR. Stjörnumenn hafa svarað fyrir sig í upphafi annars leikhluta og spennan er enn til staðar í leiknum en að loknum fyrsta leikhluta var sá möguleiki fyrir hendi að KR-ingar myndu stinga af. Fannar Freyr Helgason var að skora þrjú stig fyrir Stjörnuna.

10. mín: Staðan er 32:19 fyrir KR að loknum fyrsta leikhluta. Magnað að skora 32 stig í fyrsta leikhluta í jafn mikilvægum leik þegar spennustigið er með hæsta móti. Stjarnan hefur ekkert fengið frá Justin Shouse enn sem komið er og hann er ekki búinn að skora stig. Árangursríkast fyrir Stjörnuna virðist vera að koma boltanum á Renato Lindmets og Marvin Valdimarsson undir körfunni. Þannig hafa þeir skorað nokkrar auðveldar körfur en langskotin og glæsitilþrifin gera sig ekki ennþá. 

8. mín: Staðan er 23:14 fyrir KR. Frumkvæðið er KR-inga eins og tölurnar bera með sér. Finnur Magnússon sýnir úr hverju hann er gerður og er búinn að skora 11 stig fyrir KR nú þegar.

5. mín: Staðan er 12:6 fyrir KR. Vesturbæingar skoruðu 8 stig í röð og unnu boltann af Garðbæingum í tveimur sóknum í röð.

3. mín: Staðan er 4:4. Leikurinn fer frekar rólega af stað og liðin spila fremur rólegar sóknir til að byrja með. Finnur Magnússon hefur skorað öll stig KR og Marvin Valdimarsson öll stig Stjörnunnar.

Kl 19:04 Íþróttahúsið í Ásgarði er fyrir löngu orðið troðfullt og leikmönnum eru að ljúka upphitun en leikurinn hefst eftir rúmar 10 mínútur. Dómgæslu annast reynsluboltarnir Kristinn Óskarsson og Sigmundur Már Herbertsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert