San Antonio Spurs, sigurvegararnir í Vesturdeild NBA í körfubolta í vetur, eru fallnir úr keppni. Memphis Grizzlies, sem endaði í 8. sæti deildarinnar, vann sjötta leik liðanna í úrslitakeppninni í nótt, 99:91, og vann þar með einvígið 4:2.
Þetta er aðeins í annað sinn sem áttunda lið slær út efsta lið í 1. umferð síðan farið var að leika uppá fjóra sigurleiki í umferðinni.
Zach Randolph var maður leiksins hjá Memphis því hann skoraði hvorki meira né minna en 13 stig á síðustu fjórum mínútunum og 17 stig alls í fjórða leikhluta. Hann gerði 31 stig í leiknum, Marc Gasol skoraði 12 stig og tók 13 fráköst og þeir Tony Allen og Greivis Vasquez gerðu 11 stig hvor fyrir Memphis sem hefur aldrei áður komist áfram úr 1. umferð úrslitakeppninnar.
Tony Parker var atkvæðamestur hjá San Antonio með 23 stig.
Memphis mætir Oklahoma City Thunder í undanúrslitum Vesturdeildarinnar.