Dallas Mavericks burstaði meistara Los Angleles Lakers, 122:86, í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Vesturdeildar NBA í körfubolta í nótt og sendi þá þar með í sumarfrí. Lakers fékk háðulega útreið í einvíginu sem lauk 4:0 fyrir Dallas, sem leikur því til úrslita vestanmegin við Memphis eða Oklahoma City.
Dallas gerði nánast út um leikinn í fyrri hálfleik en að honum loknum var staðan 63:39 og ljóst að Kobe Bryant og félagar ættu sér ekki viðreisnar von. Jason Terry jafnaði metið í úrslitakeppninni með því að skora níu 3ja stiga körfur fyrir Dallas og hann gerði 32 stig samtals. J.J. Barea skoraði 22 stig, Peja Stojakovic 21 og Dirk Nowitzki 17.
Kobe Bryant var stigahæstur hjá Lakers með 17 stig. Lakers nær þar með sínum lakasta árangri frá 2007 og þetta er í fyrsta skipti á 21 ári sem þjálfarinn sigursæli Phil Jackson þarf að þola 0:4 skell í úrslitakeppni.
Austanmegin jafnaði hinsvegar Atlanta Hawks metin gegn Chicago Bulls með góðum heimasigri, 100:86, og þar er staðan nú 2:2.
Joe Johnson skoraði 24 stig og Al Horford 20 fyrir Atlanta en Derrick Rose skoraði 34 stig fyrir Chicago.