Miami náði forystunni í Dallas

LeBron James treður boltanum í körfu Dallas í leiknum í …
LeBron James treður boltanum í körfu Dallas í leiknum í nótt. Reuters

Miami Heat lagði Dallas Mavericks, 88:86, í þriðja úrslitaleik liðanna um NBA-meistaratitilinn í körfuknattleik sem fram fór í Dallas í Texas í nótt. Staðan er þar með orðin 2:1 fyrir Miami en næstu tveir leikir fara líka fram í Dallas, sem með þessum úrslitum getur ekki tryggt sér meistaratitilinn á heimaveli.

Leikurinn var jafn og tvísýnn lengst af. Miami náði góðu forskoti í byrjun síðari hálfleiks, breytti stöðunni úr 47:42 í 55:42, en Dallas jafnaði með góðri rispu, 57:57, og eftir það var spennan mikil til leiksloka. Miami þó yfirleitt með yfirhöndina.

Dallas átti síðustu sóknina, hafði fjórar sekúndur til að skora, en skot frá Dirk Nowitzki úr erfiðri stöðu geigaði.

Nowitzki skoraði 34 stig fyrir Dallas og tók 11 fráköst, Jason Terry skoraði 15 stig og Jason Kidd átti 10 stoðsendingar.

Dwyane Wade skoraði 29 stig fyrir Miami og tók 11 fráköst. Chris Bosh skorað 18 stig og LeBron James skoraði 17 og átti 9 stoðsendingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert