Benedikt Guðmundssyni, hinum sigursæla þjálfara körfuboltaliðs Þórs frá Þorlákshöfn, gengur vel að safna liði fyrir átökin í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Þórsarar eru nýliðar í deildinni eftir sannfærandi sigur í 1. deildinni og hafa fengið til sín fjóra leikmenn. Tveir öflugir íslenskir leikmenn gengu til liðs við félagið á dögunum, Guðmundur Jónsson frá Njarðvík og Darri Hilmarsson frá KR en hann var á láni hjá Hamri á síðustu leiktíð.
Benedikt staðfesti við Morgunblaðið í gær að tveir erlendir leikmenn væru á leiðinni til félagsins. Um er að ræða Bandaríkjamann og Serba. Sá bandaríski heitir Darrin Govens og er leikstjórnandi. Hann lék með St.Josephs-skólanum í háskólakörfuboltanum á sínum tíma. Sá serbneski heitir Marko Latinovic og er framherji en hann lék með Erskine-skólanum í háskólakörfuboltanum.
Benedikt sló á létta strengi þegar Morgunblaðið innti hann eftir því í gær hvort um væri að ræða öfluga leikmenn í tilviki Govens og Latinovic. „Allt eru þetta toppmenn áður en þeir koma til landsins,“ svaraði Benedikt.