Snæfell vann KR örugglega

Curry Collins var stigahæstur hjá Val gegn Stjörnunni í kvöld.
Curry Collins var stigahæstur hjá Val gegn Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Sigurgeir S.

Snæfell vann öruggan sigur á Íslandsmeisturum KR, 116:100, í annarri umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Iceland-Express-deildarinnar, í Stykkishólmi í kvöld. Njarðvík vann Hauka í Ljónagryfjunni, 107:91, og Stjarnan sigraði Val, 96:78.

Njarðvík, Snæfell og Stjarnan eru því öll komin með 4 stig ásamt Grindvíkingum að tveimur umferðum loknum. KR, Þór Þ., Keflavík og ÍR eru með 2 stig hvert en Haukar, Tindastóll, Fjölnir og Valur eru án stiga.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Staðan í leikjunum:

19.15 Snæfell - KR          (29:22) - (63:43) - (91:71) - 112:93. LEIK LOKIÐ
19.15 Njarðvík - Haukar (27:28) - (58:48) - (87:70) - 107:91. LEIK LOKIÐ
19.15 Stjarnan - Valur     (35:19) - (54:41) - (76:66) - 96:78. LEIK LOKIÐ.

20.51 - Og flautað af í Stykkishólmi þar sem Snæfell vinnur öruggan sigur á Íslandsmeisturum KR, 116:100. Tuttugu stiga munur í hálfleik og KR náði best að laga stöðuna í 12 stig í seinni hálfleiknum. Brandon Cotton skoraði 38 stig fyrir Snæfell og Quincy Hankins-Cole skoraði 25 stig og  tók 17 fráköst. David Tairu skoraði 33 stig fyrir KR og Hreggviður Magnússon 21.

20.50 - Búið í Garðabæ þar sem Stjarnan sigrar nýliða Vals 96:78. Sextán stig skildu liðin að eftir fyrsta leikhluta og það forskot entist Garðbæingum nokkurn veginn leikinn á enda. Justin Shouse skoraði 27 stig fyrir Stjörnuna og Marvin Valdimarsson 22. Curry Collins gerði 24 stig fyrir Val og Austin Magnus Bracey 17.

20.46 - Flautað af í Njarðvík þar sem heimamenn vinna Hauka örugglega, 107:91. Jafnræði framundir lok fyrri hálfleiks þegar Njarðvík sigldi framúr og var með all örugga forystu eftir það. Cameron Echols fór hamförum með Njarðvíkingum en hann skoraði 40 stig og tók 16 fráköst. Elvar Friðriksson skoraði 22 stig og Travis Holmes 21. Hjá Haukum var Jovonni Shuler með 30 stig og Örn Sigurðarson 14.

20.39 - KR tók góðan kipp í Hólminum og minnkaði muninn í 12 stig. Nú er staðan 101:87 og hálf fjórða mínúta eftir.

20.32 - Jæja, þá er Stjarnan komin í 20 stiga klúbbinn í kvöld. Loksins að hrista nýliðana af sér því staðan er 88:68 og rúmar 6 mínútur eftir.

20.28 - Stjarnan er ekki búin að hrista Valsmenn alveg af sér og staðan er 76:66 eftir þriðja leikhluta í Garðabæ. Justin Shouse er með 25 stig fyirr Stjörnuna og Curry Collins 20 stig fyrir Val.

20.27 - Enn skilja 20 stig að Snæfell og Íslandsmeistara KR því staðan er 91:71 fyrir Snæfell eftir þriðja leikhluta. Brandon Cotton er kominn með 26 stig fyrir Snæfell og David Tairu 25 fyrir KR.

20.25 - Njarðvík er með 17 stiga forystu gegn Haukum eftir þriðja leikhluta, 87:70. Cameron Echols er með 29 stig og 10 fráköst fyrir Njarðvík en Jovonni Shuler er með 19 stig fyrir Hauka.

20.13 - Öll spenna virðist vera að rjúka útí veður og vind. Snæfell og Njarðvík eru komin með 20 stiga forystu gegn KR og Haukum og Stjarnan er 12 stigum yfir gegn Val. Öllum að óvörum er minnsti munurinn í þeim leik.

20.05 - Snæfell hefur náð 20 stiga forskoti gegn Íslandsmeisturum KR í Hólminum, 63:43 í hálfleik. Brandon Cotton er kominn með 20 stig fyrir Snæfell og Quincy Hankins-Cole 10 en David Tairu er með 16 stig fyrir KR og Hreggviður Magnússon 11.

19.58 - Stjarnan er yfir í hálfleik gegn Val, 54:41, eftir að Valsmenn minnkuðu muninn í fimm stig um tíma. Marvin Valdimarsson er með 15 stig fyrir Stjörnuna og  Justin Shouse 14 en Igor Tratnik hefur skorað 11 stig fyrir Val og Austin Magnus Bracey 10.

19.56 - Njarðvíkingar áttu frábæran endasprett gegn Haukum, komust 12 stigum yfir, og staðan er 58:48 í hálfleik. Cameron Echols er með 19 stig fyrir Njarðvík og Travis Holmes 13. Jovonni Shuler hefur skorað 10 stig fyrir Hauka og Davíð Páll Hermannsson 8.

19.48 - Allt í járnum í Njarðvík og staðan 43:43 þegar rúmar þrjár mínútur eru eftir af fyrri hálfleik.

19.44 - Valsmenn hafa skorað 13 stig gegn 2 á  fyrstu fjórum mínútunum í öðrum leikhluta og minnkað muninn í fimm stig, 37:32. Fullsnemmt að afskrifa Hlíðarendapiltana.

19.36 - Stjarnan virðist ætla að fara létt með Val en staðan er 35:19 eftir fyrsta leikhluta í Ásgarði. Keith Cothran og Marel Valdimarsson eru með 11 stig hvor fyrir Stjörnuna en Curry Collins hefur gert 5 stig  fyrir Val.

19.34 - Haukar eru yfir í Njarðvík eftir fyrsta leikhluta, 28:27. Jovonni Shuler er með 8 stig fyrir Hauka en Cameron Echols 12 stig fyrir Njarðvík.

19.32 - Fyrsta leikhluta lokið í Hólminum þar sem Snæfell er yfir gegn KR, 29:22. Brandon Cotton er með 11 stig fyrir Snæfell og David Tairu er með 12 stig fyrir KR. Meistararnir sakna Edwards Lee Hortons sem rifbeinsbrotnaði í fyrsta leiknum, gegn Þór Þ.

19.28 - Spennuleikur kvöldsins enn sem komið er fer fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík þar sem heimaliðið er yfir gegn Haukum, 23:22, eftir hálfa áttundu mínútu.

19.25 - Snæfell byrjar mjög vel gegn KR og eftir hálfa fimmtu mínútu er staðan í Stykkishólmi 20:9, heimamönnum í hag. Brandon Cotton hefur þegar skorað 9 stig fyrir Hólmara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka