Íslendingarnir þrír hjá Sundsvall voru aðsópsmiklir þegar liðið vann Uppsala, 91:66, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í kvöld. Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur hjá Sundsvall með 25 stig.
Hann tók einnig þrjú fráköst og átti eina stoðsendingu. Hlynur Bæringsson skoraði átta stig, tók 12 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Pavel Ermolinski skoraði 10 stig, tók sex fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Þetta var fjórði sigur meistara Sundsvall í sex leikjum í deildinni.
Logi Gunnarsson skoraði 15 stig, tók þrjú fráköst og átti fjórar stoðsendingar þegar lið hans, Solna, vann Stockhom, 84:71, á heimavelli. Helgi Már Magnússon skoraði fjögur stig og tók tvö fráköst fyrir Stokkhólmsliðið sem hefur unnið þrjá leiki en tapað þremur til þessa í deildinni. Solna hefur unnið tvo leiki en tapað fjórum.
Brynjar Þór Björnsson var stigahæstur hjá Jämtland með 19 stig þegar liðið tapaði, 99:97, fyrir Borås á útivelli. Brynjar skoraði úr þriggja stiga skoti rétt áður en leiktíminn rann út en það dugði ekki að þessu sinni. Jämtland hefur unnið tvo leiki en tapað fjórum í deildinni.