Leikmenn úr NBA-deildinni í körfuknattleik hafa lagt fram formlega kæru á hendur deildinni fyrir óheiðarlega viðskiptahætti. Hún var lögð fyrir héraðsdóm í Norður-Karólínu í gærkvöld.
Leikmannasamtökin tilkynntu fyrr í vikunni að þau ætluðu sér að fara þessa leið, jafnframt því að slíta viðræðum við stjórn deildarinnar um skiptingu hagnaðar á milli félaganna og leikmannanna og stofna verkalýðsfélag.
Þeir sem eru skrifaðir fyrir kærunni eru Carmelo Anthony, Chauncey Billups, Kevin Durant, Kawhi Leonard og Leon Powe.
Eins og málin hafa þróast síðustu daga er allt útlit fyrir að ekkert verði leikið í NBA-deildinni í vetur en keppni hefur þegar verið frestað framí desember.