Nú virðist hætta á að NBA-deildin muni aflýsa keppnistímabilinu eftir að samningaviðræður milli stéttarfélags leikmanna og eigenda brugðust enn einu sinni á mánudag í síðustu viku.
Eins og bent var á í þessum dálkum fyrir stuttu er nokkur óeining hjá eigendum liðanna og þrátt fyrir vilja stéttarfélags leikmanna og margra eigenda að ná samkomulagi virðist nú næsta ómögulegt að brúa það litla bil sem eftir var í samningaviðræðunum þegar allt strandaði.
Tvisvar á síðustu vikum hafa deiluaðilar verið mjög nálægt samningi, en þegar á hólminn kom gátu þeir ekki tekið síðasta skrefið. Eigendur hafa gefið nokkuð eftir hvað varðar möguleika liða til að brjóta launaþakið svokallaða, sem ætti að skila hærra kaupi í vasa leikmanna. Leikmenn hafa þó samþykkt töluvert meiri launalækkanir hvað varðar prósentu af sameiginlegum tekjum liðanna (um 280 milljónir dala í launum).
Leikmenn halda því fram að með því að samþykkja þessa miklu launalækkun ætti deildin að geta haldið áfram með það kerfi sem báðir aðilar hafa lifað við undanfarinn áratug. Í núverandi kerfi hafa leikmenn töluvert frelsi til að semja við lið þegar samningar þeirra renna út. Leikmenn vilja einnig að ríkari liðin hafi áframhaldandi svigrúm til að brjóta launaþakið, svo samkeppni liðanna um leikmenn haldi áfram.
Eigendur liðanna vilja hins vegar breyta þessu meira sér í hag og setja upp kerfi sem myndi skila meiri sparnaði fyrir þá. Þrátt fyrir að þeir hafi gefið eftir varðandi launaþak liðanna vilja flestir þeirra harðari reglur þar um en nú gilda. Takmarkið að þeirra sögn er að auka samkeppnishæfni liða í smærri borgum, en eigendur liða í New York, Los Angeles, Chicago og Miami hafa nú töluverða yfirburði í að laða til sín stórstjörnur framyfir lið í smærri borgum.
Leikmenn vilja sem sé markaðssjálfræði, en eigendur vilja harðar reglur til að stjórna útgjöldum.
Eftir maraþonviðræður um þarsíðustu helgi, þar sem deiluaðilar voru nokkuð nálægt samningi, slitnaði upp úr viðræðunum þegar fulltrúar stéttarfélags leikmanna neituðu að gefa meira eftir.
Grein Gunnars má lesa í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.