Oklahoma City Thunder hélt í nótt áfram sigurgöngu sinni í NBA-deildinni í körfuknattleik. Liðið lagði San Antonio Spurs, 108:96, í Oklahoma og hefur þar með unnið átta af fyrstu tíu leikjum sínum og trónir á toppi Vesturdeildarinnar.
Yfirburðir Thunder voru meiri en tölurnar gefa til kynna því 23 stig skildu liðin að þegar hálf fjórða mínúta var eftir af leiknum. Kevin Durant var stigahæstur eins og oftast áður með 21 stig, tók 10 fráköst og átti 7 stoðsendingar. James Harden gerði 20 stig. Gary Neal skoraði mest fyrir Spurs, 18 stig.
Kobe Bryant skoraði 26 stig fyrir LA Lakers sem marði sigur á Memphis Grizzlies í Staples Center, 90:82. Lakers er þá komið með sex sigra í tíu leikjum en er aðeins í áttunda sæti Vesturdeildar.
Úrslitin í nótt:
Washington - Miami 72:93
Sacramento - Orlando 97:104
Oklahoma City - SA Spurs 108:96
Phoenix - Milwaukee 109:93
Portland - Cleveland 98:78
LA Lakers - Memphis 90:82