Golden State skellti Miami

John Wall og Trevor Booker höfðu ástæðu til að fagna …
John Wall og Trevor Booker höfðu ástæðu til að fagna í nótt þegar Washington Wizards vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu. Reuters

Golden State Warriors vann óvæntan sigur á toppliði Miami Heat, Kobe Bryant skoraði 48 stig fyrir LA Lakers og Washington Wizards vann loks sinn fyrsta leik á keppnistímabilinu í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Golden State Warriors lagði Miami Heat að velli í framlengdum leik, 111:106, í Oakland. Golden State hafði tapað fimm leikjum í röð og virtist lengi vel ekki ætla að breyta útaf vananum en staðan var 78:61 fyrir Miami seint í þriðja leikhluta og 84:72 að honum loknum. Heimamenn náðu að jafna á lokamínútunni, 96:96, og voru sterkari í framlengingunni. Þetta var annað tap Miami í fyrstu 10 leikjunum á tímabilinu.

Dorell Wright skoraði 20 stig fyrir Golden State en hann er fyrrum leikmaður Miami. Dwyane Wade lék á ný með Miami eftir meiðsli og skoraði 34 stig, þar af 20 í fyrri hálfleiknum. LeBron James skoraði 26 stig og átti 11 stoðsendingar en honum mistókst að jafna metin með 3ja stiga skoti undir lok framlengingarinnar.

Kobe Bryant skoraði 48 stig fyrir LA Lakers, hæsta skor tímabilsins til þessa, þegar lið hans vann Phoenix Suns, 99:83, í Staples Center.

Washington Wizards vann langþráðan sigur, sinn fyrsta á tímabilinu, 93:78 gegn Toronto Raptors. Washington hafði tapað fyrstu átta leikjum sínum og vann síðast leik í deildinni fyrir níu mánuðum. Rashard Lewis og Nick Young skoruðu 15 stig hvor fyrir Washington.

Russell Westbrook skoraði 30 stig fyrir Oklahoma City Thunder sem vann sinn níunda sigur í fyrstu 11 leikjunum, 100:95 gegn Memphis Grizzlies á útivelli.

Derrick Rose skoraði 30 stig og átti 11 stoðsendingar fyrir Chicago Bulls í sigri á Minnesota Timberwolves á útivelli, 111:100.

Stephen Jackson skoraði 34 stig fyrir Milwaukee Bucks sem vann San Antonio Spurs, 106:103.

Úrslitin í nótt:

Philadelphia - Sacramento 112:85
Washington - Toronto 93:78
Charlotte - Houston 70:82
Detroit - Dallas 86:100
Milwaukee - San Antonio 106:103
Memphis - Oklahoma City 95:100
Minnesota - Chicago 100:111
Utah - Cleveland 113:105
Portland - LA Clippers 105:97
LA Lakers - Phoenix 99:83
Golden State - Miami 111:106 (eftir framlengingu)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert