Kobe Bryant er heldur betur í stuði um þessar mundir því í nótt náði hann 40 stigum í þriðja leik Los Angeles Lakers í röð í NBA-deildinni í körfuknattleik. Hann gerði 42 stig þegar Lakers lagði Cleveland Cavaliers að velli í Staples Center, 97:92.
„Það er alltaf gott að eiga snilling eins og Kobe í bakhöndinni þegar maður lendir í vandræðum með að vinna leiki," sagði þjálfari Lakers, Mike Brown, við fréttamenn eftir leikinn. Þetta er í fyrsta sinn í fimm ár sem Bryant skorar 40 eða meira í þremur leikjum í röð, en þá varð hann reyndar annar leikmaður NBA í sögunni til að skora 50 eða meira í fjórum leikjum í röð!
Denver Nuggets sigraði Miami Heat á sannfærandi hátt, 117:104, á heimavelli, sem eru ekki ný tíðindi því þetta var tíunda tap Flórídaliðsins í Denver í röð. Ty Lawson skoraði 24 stig fyrir heimaliðið og Nene 17 en LeBron James gerði 35 stig fyrir Miami. Dwyane Wade hjá Miami meiddist í fjórða leikhluta, lenti illa eftir að hafa varið skot og tognaði á ökkla.
Úrslitin í nótt:
Toronto - Indiana 90:95
Philadelphia - Washington 120:89
Charlotte - Detroit 81:98
Boston - Chicago 79:88
New Orleans - Minnesota 80:87
Houston - Sacramento 103:89
Dallas - Milwaukee 102:76
San Antonio - Portland 99:83
Phoenix - New Jersey 103:110
Denver - Miami 117:104
LA Lakers - Cleveland 97:92