Meistararnir í undanúrslit eftir tvíframlengdan leik

Frá viðureign KR og Snæfells í kvöld.
Frá viðureign KR og Snæfells í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

KR og Snæfell áttust við í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins í körfuknattleik karla í DHL-höllinni í Frostaskjóli klukkan 19:15. Bikarmeistarar KR eru komnir í undanúrslit en þeir sigruðu 111:104 eftir tvíframlengdan leik og mikla skemmtun. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Atkvæðamestir:

KR: Joshua Brown 49 stig, 8 stoðsendingar. Robert Ferguson 18 stig.

Snæfell: Quincy Hankins-Cole 23 stig, 10 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 22 stig, 10 fráköst.

40 + 10 mín: Leik lokið. KR sigraði 111:104 eftir tvíframlengdan leik og bikarmeistararnir eru því komnir í undanúrslit ásamt Keflavík, Tindastóli og KFÍ.

40 + 9 mín: Staðan er 103:96 fyrir KR. Marquis Hall er kominn út af hjá Snæfelli með 5 villur og KR-ingar eru væntanlega búnir að gera út um þennan leik. Snæfell er með boltann og rétt rúm mínúta eftir. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells tekur leikhlé. Joshua Brown er heldur betur búinn að vinna fyrir kaupinu sínu hjá KR og er búinn að skora 43 stig.

40 +5 mín: Staðan er 91:91 eftir framlenginguna og því þarf að framlengja aftur um fimm mínútur. Pálmi kom Snæfelli þremur stigum yfir með tveimur vítaskotum þegar 13 sekúndur voru eftir. KR notaði aðeins 7 sekúndur í sinni sókn og Joshua Brown skoraði rosalega þriggja stiga körfu en hann var talsvert frá þriggja stiga línunni. Snæfelli tókst ekki að svara en Marquis Hall átti heiðarlega tilraun.

40 +5 mín: Staðan er 89:88 fyrir Snæfell. Pálmi Freyr Sigurgeirsson var að leggja boltann ofan í körfu KR-inga þegar 32 sekúndur eru eftir af framlengingunni. Hrafn tekur leikhlé. Snæfell er enn með alla leikmenn sína leikfæra og KR hefur ekki misst fleiri út af með fimm villur.

40. mín: Staðan er 83:83 að loknum venjulegum leiktíma. Hvorugu liðinu tókst að gera sér mat úr síðustu sókn sinni. KR fór í langa sókn þar sem Finni Magnússyni mistókst að koma skoti á körfuna og á síðustu sekúndunni reyndi Hankins-Cole að tryggja Snæfelli sigurinn með skoti rétt innan þriggja stiga línunnar en hitti ekki.

40. mín: Staðan er 83:83. Quincy Hankins-Cole var að jafna fyrir Snæfell með þriggja stiga körfu. 38 sekúndur eftir og Hrafn Kristjánsson þjálfari KR tekur leikhlé.

39. mín: Staðan er 83:79 fyrir KR þegar tæp ein og hálf mínúta er eftir. Snæfell er með boltann. Dejan Sencanski er einnig kominn með fimm villur hjá KR og meistararnir hafa því misst tvo leikmenn af velli en tveir leikmenn Snæfells hanga enn á fjórum villum.

36. mín: Staðan er 76:71 fyrir KR og munurinn því sá sami og eftir þrjá leikhluta. Robert Ferguson var hins vegar að fá sína fimmtu villu hjá KR og kemur því ekki meira við sögu í leiknum.

30. mín: Staðan er 66:61 fyrir KR fyrir síðasta leikhlutann. Snæfell vann sig inn í leikinn á ný þegar á leið þriðja leikhluta og minnkaði muninn niður í tvö stig. Quincy Hankins-Cole er einnig kominn með fjórar villur hjá Snæfelli.

24. mín: Staðan er 58:49 fyrir KR. Síðari hálfleikur hefur byrjað keimlíkt og sá fyrri en bara enn betur fyrir KR sem hefur skorað 13 stig gegn 2 hjá Snæfelli. Hreggviður Magnússon var að skila þremur stigum fyrir KR og fékk í leiðinni fjórðu villuna á Nonna Mæju sem er sá fyrsti til að fá fjórar villur í leiknum.

20. mín: Staðan er 47:45 fyrir Snæfell að loknum fyrri hálfleik. Hafþór Gunnars kom Snæfelli yfir í fyrsta skipti 46:45 með því að stela boltanum og skora úr hraðaupphlaupi. Miðað við stöðuna í leikhléi þá ætti þetta að geta orðið alvöru bikarleikur. Robert Ferguson er stigahæstur hjá KR með 12 stig en Hafþór og Marcuis Hall eru með 11 stig fyrir Snæfell.

15. mín: Staðan er 34:32 fyrir KR. Dregið hefur saman með liðunum í upphafi annars leikhluta og Hólmarar eru komnir inn í leikinn af einhverju viti. Hafþór Ingi Gunnarsson hefur komið ferskur inn af bekknum hjá Snæfelli og er kominn með 7 stig.

10. mín: Staðan er 27:17 fyrir KR að loknum fyrsta leikhluta. Góð byrjun hjá KR-ingum en Hólmarar eiga sjálfsagt eftir að finna taktinn. Dejan Sencanski sýndi að hann er með silkimjúkt skot og setti niður tvö þriggja stiga skot án þess að boltinn snerti körfuhringinn.

5. mín: Staðan er 11:5 fyrir KR. KR-ingar skoruðu sex fyrstu stigin og það tók Hólmarar rúmar þrjár mínútur að skora sína fyrstu körfu. Hólmarinn Nonni Mæju er eitthvað illa upplagður á fyrstu mínútunum og hefur tvívegis tapað boltanum klaufalega.

Kl 19:14 Talsvert af áhorfendum er mætt í KR-heimilið en undirritaður hefði búist við fleirum á leik þessara liða. Aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins er þó mættur og búinn að koma sér fyrir í stúkunni. Ekkert ætti því að vera því til fyrirstöðu að hefja leik.

Kl 19:05 Leikmenn KR munu leika með sorgarbönd til að minnast knattspyrnukappans Sigursteins Gíslasonar sem féll frá á dögunum langt fyrir aldur fram. Hans verður einnig minnst með mínútu þögn áður en leikurinn hefst. Sigursteinn lék lengi með knattspyrnuliði félagsins en studdi einnig vel við bakið á körfuknattleiksliði KR og var ársmiðahafi í mörg ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert