Keflavík í bikarúrslit ásamt Tindastóli, sem lagði KR fyrir norðan

Curtis Allen skoraði 18 stig fyrir Stólana.
Curtis Allen skoraði 18 stig fyrir Stólana. mbl.is/Golli

Keflvíkingar tryggðu sér sæti  í bikarúrslitum eftir 90:77 sigur á KFÍ í Keflavík en bikar- og Íslandsmeistarar KR eru úr leik eftir 89:86 tap fyrir Tindastóli á Sauðárkróki.

Ísfirðingar, sem eru efstir í 1. deild, mættu til Keflavíkur og byrjuðu vel en náðu ekki fylgja því eftir, fengu reyndar ekki að gera það því hægt en örugglega og með aga náðu Keflvíkingar öruggum tökum á leiknum.   

Magnús Gunnarsson var stigahæstur hjá Keflavík með 25 en Parker var næstur með 20, Cole gerði 14 og tók 17 fráköst.   

Hjá KFÍ var Miller stigahæstur með 24 og tók 11 fráköst en Ari Gylfason næstur með 13. Í miklum drama hjá dómurum í lokin var Pétur Már Sigurðsson þjálfari KFÍ rekinn út úr húsi.

Tindastólsmenn voru með forystu fram yfir hlé en gáfu þá eftir og þrautreyndir KR-ingar tóku leikinn í sínar hendur í fjórða leikhluta.  Það var hinsvegar ekki nóg því Tindastóll átti síðasta orðið. 

Tratnik gerði 19 stig fyrir Tindastól og Allen 18 auk þess að taka 7 fráköst og  Brown var með 32 stig fyrir KR og Ferguson 30 en tók 14 fráköst.

Það verða því Keflavík og Tindastóll sem mætast í úrslitum.

40. mín.  Keflavík – KFÍ 90:77og Tindastóll - KR 89:86.  Leik lokið. 

35. mín.  Keflavík – KFÍ 71:60.  Keflvíkingar halda sínu striki þó gestir þeirra berjist um.  Magnús er með 23 stig og Parker 16 en hjá KFÍ er Miller með 19 og Suljic og Ari Gylfason sitthvor 10.  Á Sauðárkróki eru KR-ingar í slæmum málum, undir 82:78 þar sem Tratnik er með 19 stig og Allen 16 en hjá KR hafa Ferguson og Brown gert sitthvor 29 stigin.

30. mín.  Keflavík – KFÍ 71:57.  Þriðja leikhluta lokið.  Keflavík með nokkuð öruggt forskot 71:57 en fyrir norðan var KR að komast yfir 73:74 þar sem fjórði leikhluti var að byrja. 

28. mín.  Keflavík – KFÍ 63:51.  Enn spenna í leiknum og nú eru Ísfirðingar grimmari í fráköstum og hitta aðeins betur.  Tindastóll sem fyrr með naumt forskot á KR, 71:67 að loknum þriðja leikhluta en KR hafði jafnað rétt áður.

24. mín.  Keflavík – KFÍ 53:43.  Gott viðbragð Ísfirðingar, sem hirtu fráköst og stálum boltum kom þeim inní leikinn á ný ... og þá tók Sigurður þjálfari Keflavíkur leikhlé.  Enn hefur Tindastóll naumt forskot fyrir norðan, 62:58 þegar þriðji leikhluti er hálfnaður.   

22. mín.  Keflavík – KFÍ 51:35.  Enn þyngist róðurinn fyrir Vestfirðinga á meðan Keflvíkingar halda sínu striki.  

20. mín. - hálfleikur.  Keflavík – KFÍ 49:35.  Ísfirðingar fóru vel af stað en Keflvíkingar voru vissir um þeirra tími kæmi, sem gekk eftir.  Magnús hefur gert 13 stig, Jarryd Cole 12 og Parker 10 en hjá KFÍ er Kristján með 10 og Edin Suljic 6.  Nýting Keflvíkinga er 15 af 25 inní teig, fjögur af 15 þriggja stiga og 7 af 10 vítum en tekið fráköst 25.  Ísfirðingar  hafa hitt úr 8 af 23 stigum úr teignum, fjórum af 11 þriggja stiga og 7 af 8 vítum en tekið alls 21 frákast.

Á Sauðárkróki er Tindastóll með 45:41 forystu gegn KR.  Allen og Tratnik hafa gert sitthvor stigin fyrir Tindastól en Ferguson 17 og Brown 13fyrir KR.

18. mín.  Keflavík – KFÍ 44:27.  Magnús og Jarryd allt í öllu hjá Keflavík, sem hefur haldið sínu striki og uppskorið fyrir það.  Vestfirðingar hinsvegar eru ekki öruggir með sig.  Enn hefur Tindastóll naumu forskoti gegn KR, 41:36.

13. mín.  Keflavík – KFÍ 35:21.  Þriggja stiga karfa Magnúsar skaut heimamönnum aðeins lengra framúr en hann er seigur við að finna laust stæði til skota.  Á Króknum er Tindastóll enn með forystu, 35:28, þegar annar leikhluti er hálfnaður.

10. mín.  Keflavík – KFÍ 24:19.  Fyrsta leikhluta lokið.  Keflvíkingar eru að komast betur inní leikinn en þurfa að hafa fyrir því - ekki síst ef Ísfirðingar fara að hitta eða taka fráköst.  Á Króknum er Tindastóll enn í forystu gegn KR, 30:25.

7. mín.  Keflavík – KFÍ 17:12.  Magnús sér um að skora fyrir Keflavík, ýmist skotum utan af velli eða undir körfunni.  Enn hitta gestirnir illa og heimamenn hirða öll fráköstin.  Á Króknum er Tindastóll með 5 stiga forystu, 23:18.    

5. mín.  Keflavík – KFÍ 11:10.  Ísfirðingum mjög mislagðar hendur í teignum, hitta mjög illa en bæta það upp með góðri vörn.  Tindastóll aftur kominn með undirtökin í 18:11 forystu gegn KR.

3. mín.  Keflavík – KFÍ 6:6.  Ísfirðingar eru í ham og hleypa efstu-deildarliðinu ekki inní leikinn.  Á Króknum eru KR-ingar að komast inní leikinn en staðan jöfn 11:11.

1. mín.  0:2.  Christopher skorar fyrstu stig leiksins úr vítum.

1. mín.  0:0.  Fjörið byrjað í Keflavík en á Króknum er Tindastóll með 5:0 forystu.

Charles Parker og félagar í Keflavík etja kappi við KFÍ.
Charles Parker og félagar í Keflavík etja kappi við KFÍ. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert