Los Angeles Clippers sýndi í nótt að liðið væri tilbúið í toppbaráttuna í NBA-deildinni í körfubolta þegar liðið knúði fram útisigur á Orlando Magic, 107:102, í framlengdum leik í Flórída.
Þetta var fjórði útisigur Clippers í röð og liðið er nú einum sigri frá því að jafna 38 ára gamalt félagsmet í sigurleikjum á útivelli. Liðið á eftir fjóra leiki á yfirstandandi ferðalagi. Chris Paul skoraði 29 stig fyrir Clippers og Dwight Howard skoraði 33 fyrir Orlando og tók 14 fráköst.
Í Portland var líka framlengt og þar tókst toppliðinu Oklahoma City Thunder að vinna góðan sigur á heimamönnum, 111:107. LaMarcus Aldridge skoraði 39 stig fyrir Portland og Kevin Durant gerði 33 stig fyrir Oklahoma.
Philadelphia 76ers lagði Los Angeles Lakers að velli, 95:90, og lið 76ers hefur nú unnið 18 af fyrstu 25 leikjum sínum í deildinni. Lou Williams skoraði 24 stig fyrir 76ers en Kobe Bryant skoraði 28 fyrir Lakers og Andrew Bynum tók 20 fráköst.
Úrslitin í nótt:
Philadelphia - LA Lakers 95:90
Washington - Toronto 111:108 (Eftir framlengingu)
Orlando - LA Clippers 102:107 (Eftir framlengingu)
New Jersey - Chicago 87:108
New York - Utah 99:88
Atlanta - Phoenix 90:99
Memphis - San Antonio 84:89
New Orleans - Sacramento 92:100
Denver - Houston 90:99
Portland - Oklahoma City 107:111 (Eftir framlengingu)