Netmiðillinn Leikbrot.is hefur birt myndskeið með lokamínútunum í undanúrslitaleik Njarðvíkur og Hauka í Powerade-bikar kvenna í körfuknattleik sem fram fór í Njarðvík í gærkvöldi. Njarðvík sigraði með tveggja stiga mun eftir framlengdan leik en jöfnunarkarfa var dæmd af Haukum á þeim forsendum að leiktíminn hafi verið liðinn þegar María Lind Sigurðardóttir sleppti knettinum.
Í myndskeiðinu kemur fram að 0,5 sekúndur hafi verið eftir af leiktímanum þegar Haukar fengu innkast sem karfan kom upp úr. Þar sést einnig að leiklukkan var ekki stillt á 0,5 sek og er því ekki hægt að notast við hana þegar karfan er skoðuð á myndbandi.
Í upphafi myndskeiðsins sést einnig glæsileg jöfnunarkarfa Hauka undir lok venjulegs leiktíma.