Sjö í röð hjá Oklahoma

Dwyane Wade hjá Miami á leið að körfu Portland í …
Dwyane Wade hjá Miami á leið að körfu Portland í nótt, framhjá Gerald Wallace. Reuters

Kevin Durant og félagar í Oklahoma City Thunder unnu í nótt sinn sjöunda leik í röð í NBA-deildinni í körfuknattleik, 105:102 gegn Orlando Magic á útivelli, og halda áfram sínu striki sem topplið Vesturdeildarinnar.

Durant var sem fyrr í aðalhlutverki og skoraði 38 stig, þar af 18 í fjórða leikhlutanum þegar Oklahoma sneri blaðinu við og skoraði 35 stig gegn 21 hjá heimamönnum. Orlando var mest með fjórtán stiga forskot í byrjun fjórða leikhluta. Russell Westbrook var líka drjúgur hjá Oklahoma með 29 stig og 10 stoðsendingar. Dwight Howard skoraði 33 stig fyrir Orlando.

Sigurinn er sögulegur fyrir Oklahoma sem hafði aldrei áður unnið leik í Orlando og tapað í öllum sjö heimsóknum sínum þangað.

LeBron James og Dwyane Wade skoruðu samtals 71 stig fyrir Miami Heat, James 38 af þeim, þegar lið þeirra vann öruggan útisigur á Portland Trail Blazers, 107:93. LaMarcus Aldridge skoraði 20 stig fyrir Portland.

Úrslitin í nótt:

Orlando - Oklahoma City 102:105
Phoenix - Minnesota 104:95
Sacramento - LA Clippers 100:108
Portland - Miami 93:107

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert