Snæfellingar gerðu sér lítið fyrir og unnu deildarmeistara Grindavíkur, 101:89, í Grindavík í kvöld í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Iceland Expressdeildinni. Úrslitin breyttu því hinsvegar ekki að í leikslok fengu leikmenn Grindavíkur afhentan deildarmeistarabikarinn sem þeir tryggðu sér fyrir skömmu.
Leikmenn Snæfells voru yfir í leiknum frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Þeir sitja áfram sem fastast í sjötta sæti deildarinnar með 22 stig að loknum 20 leikjum.
Nathan Bullock skoraði 25 stig fyrir Grindavík í kvöld og tók 13 fráköst. Páll Axel Vilbergsson skoraði 18 stig. Hjá Snæfelli var Marquis Sheldon Hall með 22 stig. Quincy Hankins-Cole skoraði 21 stig og tók 17 fráköst auk þess að eiga þrjár stoðsendingar. Jón Ólafur Jónsson skoraði 18 stig, tók 11 fráköst og átti fimm stoðsendingar.