Stórleikur hjá Andrew Bynum og Pau Gasol dugði LA Lakers ekki til sigurs gegn Utah Jazz á heimavelli í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt því Kobe Bryant, félagi þeirra, átti sinn versta leik í sjö ár, hvað varðar skotnýtingu.
Lakers mátti sætta sig við óvæntan ósigur, 99:103, í Staples Center en liðið hafði unnið síðustu 10 heimaleiki sína. Kobe skoraði aðeins 15 stig, hitti úr 3 skotum af 20 utan af velli og hefur ekki verið með verri nýtingu í leik síðan í desember 2004. „Svona leikir koma. Ég gat bara ekki skorað,“ sagði Kobe við fréttamenn eftir leikinn.
Andrew Bynum átti sinn besta leik, hitti úr nánast hverju skoti og skoraði 33 stig ásamt því að taka 11 fráköst. Gasol skoraði 18 stig og tók 10 fráköst en liðið missti boltann 24 sinnum í fyrstu þremur leikhlutunum. Paul Millsap var atkvæðamestur hjá Utah með 24 stig.
Russell Westbrook skoraði 28 stig fyrir Oklahoma City Thunder sem vann Portland Trail Blazers, 111:95, og er áfram á toppi Vesturdeildar með 34 sigra í 45 leikjum.
Dwyane Wade skoraði 31 stig fyrir Miami Heat sem vann grannaslaginn á Flórída við Orlando Magic, 91:81. Dwight Howard skoraði 18 stig fyrir Orlando og tók 11 fráköst.
Úrslitin í nótt:
Cleveland - Atlanta 87:103
LA Clippers - Detroit 87:83 (Eftir framlengingu)
Memphis - Washington 97:92
Sacramento - Minnesota 115:99
Miami - Orlando 91:81
Phoenix - Houstson 99:86
Oklahoma City - Portland 111:95
LA Lakers - Utah 99:103