Tveir leikir fóru fram í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í kvöld. Keflavík og Stjarnan áttust við í Keflavík og í Stykkishólmi tók Snæfell á móti Þór frá Þorlákshöfn. Keflavík og Snæfell sigruðu og knúðu fram oddaleiki þar sem staðan í rimmunum er 1:1. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Vinna þarf tvo leiki til að komast í undanúrslit Íslandsmótsins.
40. mín: Leiknum er lokið í Keflavík. Keflavík sigraði 88:82 eftir spennandi leik. Charles Parker innsiglaði sigur Keflavíkur með því að setja niður fjögur vítaskot á lokamínútunni. Staðan í rimmunni er 1:1 og oddaleikurinn fer fram í Ásgarði í Garðabæ á fimmtudaginn, Skírdag. Parker skoraði alls 24 stig og tók 12 fráköst en Justin Shouse var stigahæstur hjá Stjörnunni með 20 stig.
40. mín: Leiknum er lokið í Stykkishólmi. Snæfell sigraði 94:84 og jafnaði þar með stöðuna í rimmunni í 1:1. Oddaleikurinn fer fram í Þorlákshöfn á fimmtudaginn, Skírdag. Jón Ólafur Jónsson var stigahæstur hjá Snæfelli með 27 stig og lét sér nægja að skora 5 stig í síðari hálfleik. Darrin Govens skoraði mest hjá Þór 32 stig.
36. mín: Snæfell hefur tekið rispu í Hólminum og hefur tíu stiga forskot 87:77 þegar um fjórar mínútur eru eftir.
30. mín: Staðan er 72:71 fyrir Keflavík að loknum þremur leikhlutum. Enn hefur forystan sveiflast á milli liðanna og síðasti leikhlutinn gæti orðið afar forvitnilegur.
30. mín: Staðan er 69:62 fyrir Snæfell fyrir síðasta leikhlutann. Heimamenn virðast hafa náð yfirhöndinni. Þeir geta þó ekki leyft sér að fagna strax því liðið missti niður forskot í fyrri leiknum og tapaði.
20. mín: Miklar sveiflur eru á milli leikhluta í Keflavík. Stjarnan er yfir 50:45 að loknum fyrri hálfleik en Keflavík var níu stigum yfir eftir fyrsta leikhluta. Mikil spenna er í Hólminum þar sem Þór er yfir 49:47 fyrir síðari hálfleikinn. Þar hefur Jón Ólafur Jónsson farið mikinn og er nú þegar búinn að skora 22 stig fyrir Snæfell en Darrin Govens er með 14 fyrir Þór og Guðmundur Jónsson 12. Í Keflavík hefur Jarryd Cole skorað 15 stig fyrir heimamenn en Keith Cothran 13 fyrir Stjörnuna.
10. mín: Í Stykkishólmi er allt galopið að loknum fyrsta leikhluta. Þórsarar eru yfir 21:20.
10. mín: Staðan er 30:21 fyrir Keflavík gegn Stjörnunni að loknum fyrsta leikhluta. Frábær byrjun hjá bikarmeisturunum.