Grindavík Íslandsmeistari í körfunni

Þór Þorlákshöfn og Grindavík áttust við í fjórða úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla í Þorlákshöfn klukkan 19:15. Grindavík sigraði 78:72 og varð þar með Íslandsmeistari en liðið vann úrslitarimmuna samtals 3:1. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Lið Þórs: Baldur Þór Ragnarsson, Darrin Govens, Blagoj Janev, Emil Karel Einarsson, Erlendur Ágúst Stefánsson, Joseph Henley, Guðmundur Jónsson, Vilhjálmur Atli Björnsson, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson, Darri Hilmarsson, Grétar Ingi Erlendsson, Þorsteinn Már Ragnarsson.

Lið Grindavíkur: Giordan Watson, Þorsteinn Finnbogason, Ómar Örn Sævarsson, Björn Steinar Brynjólfsson, Jóhann Árni Ólafsson, Ryan Pettinella, Páll Axel Vilbergsson, J´Nathan Bullock, Ármann Vilbergsson, Þorleifur Ólafsson, Einar Ómar Eyjólfsson, Sigurður Þorsteinsson.

Gangur leiksins: 3:6, 7:13, 9:13, 15:20, 17:22, 22:24, 26:27, 36:33, 36:41, 41:49, 48:53, 53:59, 55:62, 60:67, 68:69, 72:78.

Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens 26/4 fráköst, Joseph Henley 17/4 fráköst/3 varin skot, Blagoj Janev 10/7 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 8, Guðmundur Jónsson 5/5 fráköst, Darri Hilmarsson 4/6 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 2.

Fráköst: 22 í vörn, 6 í sókn.

Grindavík: J'Nathan Bullock 36/8 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/9 fráköst, Þorleifur Ólafsson 10/4 fráköst, Giordan Watson 7/5 fráköst/6 stoðsendingar, Ryan Pettinella 6, Jóhann Árni Ólafsson 4/7 fráköst/6 stoðsendingar, Björn Steinar Brynjólfsson 3.

Fráköst: 27 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

40. mín: Leiknum er lokið með sigri Grindavíkur 78:72 og titillinn er þeirra. Grindvíkingar eru vel að titlinum komnir. Þeir eru með ógnarsterkt lið og voru bestir í allan vetur eins og staðan í deildinni sýndi.

40. mín: Staðan er 75:72 fyrir Grindavík. Watson fer á vítalínuna fyrir Grindavík. 7 sekúndur eftir.

40. mín: Staðan er 73:70 fyrir Grindavík. Sókn Þórs rannt út í sandinn. Guðmundur klikkaði á þriggja stiga skoti. Þórsarar náðu frákastinu en tveggja stiga skot Govens klikkaði. Grindavík tekur leikhlé. Þeir eru með boltann og 18 sekúndur eftir.

40. mín: Staðan er 73:70 fyrir Grindavík. Bullock var að skora auðvelda körfu og Benedikt tekur leikhlé. 40 sekúndur eftir af leiknum.

39. mín: Staðan er 71:69 fyrir Grindavík sem er með boltann og mínúta eftir.

38. mín: Staðan er 69:68 fyrir Grindavík. Govens skoraði þriggja stiga körfu og kom Þór yfir en Bullock svaraði strax.

37. mín: Staðan er 67:65 fyrir Grindavík. Þórsarar eru með boltann og geta jafnað eða komist yfir.

35. mín: Staðan er 67:60 fyrir Grindavík. Ég sé ekki annað í stöðunni en að Grindavík landi þessum sigri og þar með titlinum. Govens hefur lítið haft sig í frammi í síðari hálfleik eftir 19 stiga fyrri hálfleik á meðan Bullock hefur haldið áfram að skora fyrir Grindavík. Guðmundur hefur auk þess hitt úr einu af átta þriggja stiga skotum sínum hjá Þór.

33. mín: Staðan er 62:58 fyrir Grindavík. Baldur Þór Ragnarsson með grísakörfu fyrir utan þriggja stiga línuna í spjaldið og ofan í. Enn er von fyrir heimamenn í Þorlákshöfn.

32. mín: Staðan er 60:55 fyrir Grindavík. Joseph Henley tróð hrikalega yfir einn Grindvíkinginn. Ef þetta kveikir ekki neista hjá heimamönnum þá mun ekkert gera það.

30. mín: Staðan er 59:53 fyrir Grindavík fyrir síðasta leikhlutann. Grindvíkingar eru tíu mínútum frá Íslandsmeistaratitlinum og eru líklegir til að landa sigri í þessum leik. Þórsarar þurfa að hafa mun meira fyrir flestum sínum körfum.

28. mín: Staðan er 53:50 fyrir Grindavík. Grindvíkingar eru skrefinu á undan en tekst ekki að hrista Þórsara af sér. Leikurinn virðist vera afar erfiður fyrir Þór en þeim tekst þó að hanga í Grindvíkingum. Spurningin er hvort þeir muni hafa orku til að vinna leikinn en Þórsarar spila á mun færri leikmönnum.

25. mín: Staðan er 47:38 fyrir Grindavík. Þórsarar töpuðu boltanum enn eina ferðina og Þorleifur refsaði með þriggja stiga körfu. Eru Grindvíkingar að leggja grunninn að þriðja sigrinum?

23. mín: Staðan er 41:36 fyrir Grindavík. Þórsarar hafa tapað boltanum ítrekað í sókninni í upphafi seinni hálfleiks. Benedikt er nóg boðið og tekur leikhlé.

22. mín: Staðan er 37:36 fyrir Grindavík. Síðari hálfleikur er hafinn og Grindvíkingar hafa endurheimt forystu sína.

20. mín: Staðan er 36:33 fyrir Þór að loknum fyrri hálfleik. Blagoj Janev slaufaði hálfleiknum með því að skora tvær þriggja stiga körfur í röð og Þórsarar fara af þeim sökum með forskot til búningsherbergja. Aðeins í þriðja skiptið í leiknum sem Þórsarar komast yfir. Útlit fyrir hörkuleik eins og áhorfendur eiga skilið að fá í úrslitarimmu. Darrin Govens er að vinna fyrir kaupinu sínu og hefur skorað 19 stig fyrir Þór og hjá Grindavík er J´Nathan Bullock með 16 stig. Grindavík hefur tekið 22 fráköst en Þór 10 og því merkilegt að Þórsarar skuli vera yfir.

16. mín: Staðan er 24:24. Benedikt þjálfari Þórs tekur leikhlé. Þetta gæti orðið alvöru leikur á meðan Þórsarar missa Grindvíkinga ekki langt frá sér. Upphafsmínúturnar lofuðu ekki góðu fyrir Þór en þeir hafa rétt úr kútnum.

14. mín: Staðan er 22:22. Þórsarar voru að jafna leikinn með þriggja stiga körfu frá Govens.

10. mín: Staðan er 20:15 fyrir Grindavík að fyrsta leikhluta loknum. J´Nathan Bullock er heitur hjá Grindavík og hefur skorað 11 stig og það veit á gott fyrir Grindvíkinga. Darrin Govens er með 10 fyrir Þór en hann hefur tvívegis skilað þremur stigum í sókn. Grindvíkingar hafa tekið 12 fráköst en Þórsarar aðeins 6.

6. mín: Staðan er 13:10 fyrir Grindavík. Gestirnir skoruðu ellefu stig í röð en heimamenn eru að vinna sig inn í leikinn.

3. mín: Staðan er 8:3 fyrir Grindavík. Guðmundur Jónsson skoraði fyrstu körfu leiksins með þriggja stiga skoti en Grindvíkingar hafa svarað með átta stigum í röð.

Kl 19:10 Nú er hér um bil allt að verða vitlaust í húsinu og Kristinn Friðriksson körfuboltasérfræðingur Morgunblaðsins er farinn að iða í sætinu. Leikmenn eru nú að leggja lokahönd á upphitun sína og undirbúning.

Kl 18:45 Grindavík vann fyrstu tvo leikina. Fyrsti leikurinn fór fram í Grindavík og urðu lokatölurnar 93:89. Liðin mættust hér í Þorlákshöfn í öðrum leiknum og þá vann Grindavík sannfærandi sigur 79:64. Þórsarar svöruðu fyrir sig í þriðja leiknum í Grindavík og unnu 98:91.

Kl 18:45 Húsið er að fyllast hálftíma fyrir leik. Ljóst er að uppselt verður á leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka