J´Nathan Bullock leikmaður Grindavíkur var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar í körfuknattleik en Grindavík tryggði sér titilinn með 78:72 sigri á Þór í Þorlákshöfn í kvöld.
Mbl.is tók Bullock tali þegar titillinn var í höfn. „Ég er keppnismaður og í hvert skipti sem ég geng inn á völlinn þá vil ég vinna titla,“ sagði Bullock meðal annars og sagði leikmenn Grindavíkur hafa smollið saman á fyrsta degi.
Bullock sagði jafnframt að liðsheildin hafi verið góð og leikmenn liðsins væru ekki uppteknir af því hver væri mest í sviðsljósinu í leikjunum. Slíkt hugarfar væri ávallt líklegt til árangurs.
Bullock sparaði ekki hrósið til handa þjálfaranum Helga Jónasi Guðfinnssyni. „Ég get ekki hrósað Helga nóg. Hann var með margt á sinni könnu. Í liðinu eru mörg vopn en hann hélt okkur öllum á tánum.“
Spurður um hvort hann sjái það fyrir sér að snúa aftur á næstu leiktíð sagði Bullock og hló: „Þú verður að spyrja Grindavík að því.“