Annað tap hjá Lakers

Mo Williams hjá Utah reynir að komast framhjá Bernard James …
Mo Williams hjá Utah reynir að komast framhjá Bernard James og Jae Crowder, leikmönnum Dallas. AFP

Los Angeles Lakers byrjar nýtt tímabil í NBA-körfuboltanum ekki vel því í nótt beið liðið sinn annan ósigur í fyrstu tveimur leikjunum. Nú var það Portland sem hafði betur á sínum heimavelli, 116:106, en Lakers tapaði í Dallas í fyrrinótt.

Nicolas Batum skoraði 26 stig fyrir Portland og nýliðinn Damian Lillard skoraði 23 og átti 11 stoðsendingar í sínum fyrsta NBA-leik. Dwight Howard skoraði 33 stig fyrir Lakers og tók 14  fráköst og Kobe Bryant skoraði 30 stig.

Vendipunktur leiksins var í þriðja leikhluta þegar staðan var 79:76 en þá gerði Portland, með varamanninn Sasha Pavlovic í aðalhlutverki, 13 stig í röð og Lakers átti ekki möguleika eftir það.

Úrslitin í nótt:

Portland - LA Lakers 116:106
LA Clippers - Memphis 101:92
Phoenix - Golden State 85:87
Utah - Dallas 113:94
New Orleans - San Antonio 95:99
Chicago - Sacramento 93:87
Detroit - Houston 96:105
Philadelphia - Denver 84:75
Toronto - Indiana 88:90

Marwin Williams og Mo Williams skoruðu 21 stig hvor fyrir Utah sem vann góðan sigur á Dallas, 113:94, í Saltvatnsborg.

San Antonio knúði fram sigur í New Orleans, 99:95, þar sem Frakkinn Tony Parker gerði 24 stig og tryggði sigurinn með þriggja stiga körfu á lokamínútunni.

James Harden var stigahæstur allra í nótt en hann skoraði 37 stig fyrir Houston í útisigrinum í Detroit og átti auk þess 12 stoðsendingar. Houston krækti í Harden í sumar þegar Oklahoma City var ekki tilbúið til að hækka við hann launin og samdi við hann til fimm ára. Harden var valinn besti „sjötti maðurinn“ í NBA síðasta vetur en þá viðurkenningu fær sá sem lætur mest að sér kveða af þeim sem ekki eru reglulega í byrjunarliði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Gísli Foster Hjartarson: 0-1
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert