Tvíframlengt þegar Stjarnan vann Njarðvík

Teitur Örlygsson fagnaði í kvöld sigri á sínum gamla heimavelli …
Teitur Örlygsson fagnaði í kvöld sigri á sínum gamla heimavelli í Njarðvík. mbl.is/Árni Sæberg

Þrír leikir fóru fram í Dominos-deild karla í körfuknattleik klukkan 19:15. ÍR kom á óvart og skellti Íslandsmeisturum Grindavíkur í Hellinum 105:99. Stjarnan vann í Njarðvík 115:108 eftir tvíframlengdan leik. Loks vann Keflavík 91:69 sigur á Fjölni. 

Úrslit kvöldsins: 

Njarðvík - Stjarnan: 108:115 - leik lokið

ÍR - Grindavík: 105:99 - leik lokið

Keflavík - Fjölnir: 91:69 - leik lokið

50. mín: Leik lokið. Stjörnunni tókst að kreista fram sigur eftir tvær framlengingar í Njarðvík 115:108. Justin Shouse átti stórleik eins og svo oft áður. Hann skoraði 33 stig og tók 12 fráköst. Elvar Friðriksson skilaði 36 stigum hjá Njarðvík og Marcus Van tók 27 fráköst. 

45. mín: Aftur þarf að framlengja í Ljónagryfjunni hjá Njarðvík og Stjörnunni. Staðan er 98:98 að lokinni einni framlengingu. 

40. mín: Leik lokið. ÍR-ingar gerðu sér lítið fyrir og skelltu Íslandsmeisturunum frá Grindavík 105:99 í Seljaskóla. Eric Palm fór á kostum og var með 35 stig hjá ÍR en Samuel Zeglinski var stigahæstur hjá Grindavík með 28 stig og Jóhann Árni Ólafsson skoraði 25.

40. mín: Leik lokið. Keflavík burstaði Fjölni 91:69 en leikurinn var þó jafnari framan af en úrslitin gefa til kynna. Michael Graion var stigahæstur Keflvíkinga með 25 stig og tók 10 fráköst. Íslenski ríkisborgarinn Darrel Lewis var með 22 stig. Hjá Fjölni var Árni Ragnarsson atkvæðamestur með 18 stig og 9 fráköst. 

40. mín: Jafnt er í Njarðvík að loknum venjulegum leiktíma 89:89 og því þarf að framlengja til að fá fram úrslit. 

20. mín: Garðbæingar snéru taflinu við í öðrum leikhluta og eru með fjögurra stiga forskot í leikhléi. Þeir unnu 2. leikhluta með fimmtán stiga mun í Njarðvík. Grindavík hefur ekki hrist ÍR af sér en er með frumkvæðið. Keflavík er yfir á móti Fjölni 46:40 að loknum fyrri hálfleik. 

Leikstjórnandinn ungi Elvar Friðriksson er kominn með 20 stig fyrir Njarðvík en Justin Shouse er með 15 stig hjá Stjörnunni. Jóhann Árni Ólafsson er stigahæstur Grindvíkinga með 13 stig. Eric Palm hefur skorað 12 stig fyrir ÍR. Darrel Lewis hefur farið mikinn hjá Keflavik og er með 19 stig en hjá Fjölni er Sylvester Spicer atkvæðamestur með 11 stig.

10. mín: Njarðvík er með mikið forskot á Stjörnuna að loknum fyrsta leikhluta. Íslandsmeistararnir hafa strax tekið frumkvæðið í Breiðholti en allt er í járnum í Keflavík. 

Hreggviður Magnússon gerði 12 stig fyrir ÍR þegar liðið vann …
Hreggviður Magnússon gerði 12 stig fyrir ÍR þegar liðið vann Grindavík í kvöld. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert