Knattspyrnukonan Greta Mjöll Samúelsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning um að leika með Breiðabliki í Pepsi-deild kvenna. Greta var við nám í Bandaríkjunum og lék ekkert með Breiðabliki á síðasta sumri, en spilaði með Aztec MA í bandarísku áhugamannadeildinni.
Hún er flutt heim og ætlar að taka upp þráðinn með uppeldisfélagi sínu á nýjan leik.
Greta Mjöll er 25 ára gömul. Hún hefur spilað með meistaraflokki Breiðabliks frá 16 ára aldri og á að baki 106 leiki með meistaraflokki Breiðabliks sem hún hefur skorað í 60 mörk. Þar af eru 90 leikir og 48 mörk í efstu deild.
Greta Mjöll hefur þar að auki leikið 28 landsleiki með A landsliði Íslands og skorað í þeim þrjú mörk. Hún var á dögunum valin í 42 kvenna úrtakshóp kvennalandsliðsins.