Snæfell hefur lagt inn kæru til Körfuknattleikssambands Íslands vegna ólöglegs leikmanns sem Valur notaði í leik liðanna í úrvalsdeild kvenna í gær.
Valur mætti til leiks með nýjan bandarískan leikmann, Jaleesu Butler, sem áður hefur spilað með Hamri og Keflavík hér á landi.
Friðrik Ingi Rúnarsson, framkvæmdastjóri KKÍ, staðfestir í samtali við mbl.is að Butler hafi ekki verið komin með leikheimild og því verið ólögleg í gær.
Valur vann leikinn örugglega, 81:64, en fastlega má búast við því að Snæfelli verði dæmdur sigur, 20:0, þegar aga- og úrskurðarnefnd hefur farið yfir málið.
Butler skoraði 18 stig og tók 19 fráköst í sigri Valskvenna í gær.