Körfuknattleiksmaðurinn Predrag Danilovic, fyrrum leikmaður Miami Heat og Dallas Maverics, liggur alvarlega slasaður á sjúkrahúsi í Belgrad eftir að hafa verið stunginn margsinnis með hnífi á veitingastað í borginni.
Danilovic, sem nú er forseti Partizan Belgrad, hefur samkvæmt upplýsingum lækna gengist undir uppskurði vegna áverka á kvið, höfði og handleggjum. Hann er sagður í lífshættu.
Predrag Danilovic er 43 ára gamall og varð Evrópumeistari með Júgóslavíu 1989, 1991, 1995 og 1997 og fékk silfur á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996. Hann varð fjórum sinnum ítalskur meistari með Virtus Bologna, sem hann lék með áður og eftir að hann spilaði í NBA með Miami og Dallas á árunum 1995 til 1997. Hann varð Evrópumeistari með Partizan Belgrad 1992 og var kjörinn besti körfuknattleiksmaður Evrópu árið 1998.