Miðað við styrkleikaröðun og fyrri afrek virðist íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik ekki eiga mikla möguleika gegn mótherjum sínum í undankeppni Evrópumótsins.
Dregið var í riðla í gær og íslenska liðið var óheppið að því leyti að það lenti í öðrum tveggja riðla sem eru aðeins skipaðir þremur liðum. Mótherjarnir eru Bosnía og Bretland og leikið er heima og heiman í ágúst á þessu ári. Lokakeppnin fer fram í Úkraínu á næsta ári.
Þegar liðunum var raðað upp fyrir dráttinn var Bosnía fjórða besta lið undankeppninnar og Bretland það áttunda besta. Ísland var hinsvegar í 19. sæti af 26 þjóðum sem eiga möguleika á að vinna sér sæti á EM.
Sigurlið riðlanna fara beint til Úkraínu og einnig sex af þeim sjö þjóðum sem enda í öðru sæti.
Möguleikar Íslands virðast frekar vera fólgnir í því að skáka Bretum en það verður þó við ramman reip að draga.
Bosnía á einn leikmann í NBA-deildinni, Mirza Teletovic, 2,06 m háan framherja sem spilar með Brooklyn Nets.
Bretar gætu teflt fram Luol Deng, leikmanni Cleveland Cavaliers, sem er líka 2,06 m hár framherji, og Joel Freeland, leikmanni Portland Trail Blazers, sem er 2,08 m hár miðherji. Þá er Daniel Clark, 2,08 m hár framherji, samherji Jóns Arnórs Stefánssonar hjá Zaragoza á Spáni.