Jón Axel Guðmundsson fetaði í dag í fótspor föður síns Guðmundar Bragasonar þegar hann varð bikarmeistari með Grindavík í Laugardalshöllinni í dag.
Grindavík sigraði ÍR 89:77 í bikarúrslitaleiknum og átti hinn 18 ára gamli Jón Axel fína innkomu af varamannabekknum. Hann skoraði 10 stig og hitti úr öllum fjórum skotum sínum í opnum leik. Tveimur fyrir utan þriggja stiga línuna og tveimur fyrir innan hana.
„Ég var að deyja úr stressi þegar ég kom fyrst inn á. Þegar maður spilar vel þá kemur sjálfstraustið. Ég er alltaf að spila á móti þessum andstæðingum í drengja- og unglingaflokki og það var ekkert mjög ólíkt að mæta þeim hérna,“ sagði Jón Axel í samtali við mbl.is en hann fékk góð ráð frá Guðmundi föður sínum fyrir leikinn.
„Já hann talaði við mig og hélt kortersræðu fyrir leikinn. Hann sagði að ég ætti bara að spila minn leik og hugsa þetta eins og ég væri að spila í mínum flokki.“
Jón segir Grindavíkurliðið vera það sterkasta á Íslandi í dag enda er liðið núna handhafi tveggja stærstu titlanna. „Við biðum í níu daga frá síðasta leik og hugsuðum ekki um annað en þennan úrslitaleik. Við ætluðum okkur að berjast og okkur tókst að vinna. Þótt við séum í 3. sæti í deildinni þá erum við með besta liðið á Íslandi,“ sagði Jón Axel Guðmundsson við mbl.is.