Haukar urðu í dag bikarmeistarar kvenna í körfuknattleik með sigri á Snæfelli 78:70 í úrslitaleik í Laugardalshöll. Lele Hardy fór hamförum í leiknum eins og henni einni er lagið og skoraði 44 stig fyrir Hauka auk þess að taka 14 fráköst og stela boltanum sjö sinnum. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Var þetta annar sigur Hauka í bikarkeppninni á síðustu fimm árum.
Margrét Rósa Hálfdánardóttir skoraði 10 stig fyrir Hauka og þá átti Jóhanna Björk Sveinsdóttir fínan leik með 8 stig og 7 fráköst. Chynna Brown var stigahæst hja Snæfelli með 31 stig og Hildur Björg Kjartansdóttir gerði 18 og tók 12 fráköst.
40. mín: Leik lokið með sigri Hauka 78:70. Haukar eru bikarmeistarar 2014.
39. mín: Staðan er 73:67 fyrir Hauka. Snæfell með boltann og mínúta eftir. Snæfell minnkaði niður í tvö stig en Haukar hafa skorað fjögur stig í röð.
38. mín: Staðan er 69:65 fyrir Hauka sem taka leikhlé. Snæfell er með boltann þegar tvær og hálf mínúta er eftir.
37. mín: Staðan er 69:63 fyrir Hauka. Hafnfirðingum tekst að halda Hólmurum í hæfilegri fjarlægð.
35. mín: Staðan er 64:58 fyrir Hauka. Tíminn hefur ekki staðið í stað heldur hefur leikmönnum liðanna tekist illa upp í síðustu sóknum.
32. mín: Staðan er 64:58 fyrir Hauka. Íris Sverris skoraði þriggja stiga körfu fyrir Hauka og gaf tóninn fyrir síðasta leikhlutann.
30. mín: Staðan er 59:54 fyrir Hauka fyrir síðasta leikhlutann. Hafnfirðingar héldu forskoti sínu í þriðja leikhluta. Forskotið er naumt og allt opið í þessum leik. Nú fara taugarnar að segja verulega til sín hjá leikmönnum liðanna. Hardy hefur skorað 30 stig fyrir Hauka og Brown 22 fyrir Snæfell. Lovísa Henningsdóttir hjá Haukum er sú eina sem er komin með fjórar villur.
27. mín: Staðan er 53:48 fyrir Hauka. Gunnhildur Gunnarsdóttir hjá Haukum er komin með þrjár villur og er sú eina sem hefur fengið fleiri en tvær. Ekki því teljandi villuvandræði í gangi.
23. mín: Staðan er 47:46 fyrir Hauka. Fimm stig í röð frá Snæfelli. Hörkuleikur og stefnir í mikla spennu ef fram heldur sem horfir.
21. mín: Staðan er 41:37 fyrir Hauka. Síðari hálfleikur er hafinn og Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði fyrstu stigin í síðari hálfleik fyrir Snæfell.
20. mín: Staðan er 41:35 fyrir Hauka að loknum fyrri hálfleik. Lele Hardy fór á kostum á síðustu mínútum fyrri hálfleiks og lauk hálfleiknum með því að setja niður þriggja stiga körfu, spjaldið og ofan í. Stemningin var öll með Haukum rétt fyrir hléð og spurning hvernig Snæfell tekst á við mótlætið. Hardy er komin með 22 stig nú þegar fyrir Hauka. Ótrúlegur leikmaður. Jóhanna Björk Sveinsdóttir er með 8 stig og 7 fráköst. Chynna Brown er stigahæst hjá Snæfelli með 15 stig og Hildur Björg Kjartansdóttir hefur skorað 8 stig og tekið 9 fráköst.
17. mín: Staðan er 28:27 fyrir Hauka. Gunnhildur Gunnarsdóttir var að koma Haukum yfir í fyrsta skipti í leiknum.
16. mín: Staðan er 24:22 fyrir Snæfell. Haukaliðið er komið inn í leikinn fyrir alvöru og Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells tekur leikhlé. Jóhanna Björk Sveinsdóttir hefur leikið vel hjá Haukum og er komin með 6 stig.
10. mín: Staðan er 21:11 fyrir Snæfell að loknum fyrsta leikhluta. Lið Hauka á mikið inni en varnarleikur Snæfells er öflugur.
8. mín: Staðan er 17:6 fyrir Snæfell. Ótrúlega mikill munur í upphafi leiks. Chynna Brown er nú þegar búin að skora 12 stig fyrir Hólmara.
7. mín: Staðan er 13:6 fyrir Snæfell og Bjarni Magnússon þjálfari Hauka tekur leikhlé.
5. mín: Staðan er 10:6 fyrir Snæfell. Hafnfirðingar hitta ekkert sérstaklega vel í upphafi leiks. Gunnhildur Gunnarsdóttir byrjar ekki vel gegn uppeldisfélagi sínu úr Hólminum en ekki er svo sem óvanalegt að skjálfti sé í leikmönnum á upphafsmínútum bikarúrslitaleikja þar sem spennustigið er mun hærra en í deildarleikjum.
3. mín: Staðan er 6:4 fyrir Snæfell. Leikurinn byrjar nokkuð fjörlega. Leikmenn meistaraflokks karla fara fyrir stuðningsmönnum Snæfells og eru áberandi á hliðarlínunni.
1. mín: Leikurinn er hafinn og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir skoraði fyrstu stig leiksins fyrir Snæfell.
Snæfell hefur aldrei orðið bikarmeistari en lék til úrslita fyrir tveimur árum síðan og tapaði þá fyrir Njarðvík sem var þá með Lele Hardy, lykilmann Hauka, innanborðs. Haukar hafa fimm sinnum orðið bikarmeistarar, síðast árið 2010. Fáar úr því liði eru enn í liði Hauka.
Snæfell vann Tindastól, Val og KR á leið sinni í úrslit en Haukar slógu út Fjölni og Keflavík en sátu hjá í fyrstu umferð.