„Það er ekki öruggt að ég verði áfram hjá KR en það er frekar ljóst að ég fer alla vega ekki aftur til Svíþjóðar. Mér líður mjög vel í KR og það þarf eitthvað mikið til að draga mig þaðan,“ sagði Pavel Ermolinskij, leikstjórnandi Íslandsmeistaraliðs KR, við Morgunblaðið.
Pavel átti frábært tímabil með KR, eftir að hafa snúið tilbaka úr atvinnumennsku í Svíþjóð. Hann náði meðal annars sjö sinnum að gera þrefalda tvennu í Dominos-deildinni í vetur og var algjör lykilmaður í yfirburðaliði KR-inga. Ljóst er að hann gæti snúið aftur í sænsku úrvalsdeildina en Pavel hefur ekki áhuga á því. Hann hefur fundið fyrir áhuga víða en vill halda kyrru fyrir í Vesturbæ nema spennandi tilboð berist úr einhverri af sterkari deildum Evrópu, til að mynda á Spáni eða í Frakklandi.
„Þessar síðustu vikur hafa verið að dúkka upp einhverjir karlar en það kom á svolítið leiðinlegum tíma því ég var í miðri úrslitakeppni og ekkert að spá í þessa hluti. Það var einhver áhugi í Svíþjóð og fleiri löndum. Spánn barst eitthvað í tal en ástandið þar er mjög slæmt. Það hefur margt borið á góma en ekkert sem hönd er á festandi. Ég er ekkert að fara að leggja líf mitt og sál í að finna eitthvert lið úti. Ef það kemur eitthvað gott þá skoða ég það,“ sagði Pavel sem lék á Spáni í 7 ár áður en hann kom til KR 2010.