NBA-stjarnan og leikmaður Los Angeles Lakers, Kobe Bryant telur að evrópskir körfuknattleiksmenn séu hæfileikaríkari heldur en bandarískir leikmenn nú á dögum en þetta sagði hann í viðtali eftir þriggja stiga tap LA Lakers gegn Memphis Grizzlies í nótt.
„Þeim er bara kenndur leikurinn á réttan hátt frá unga aldri. Þeir eru hæfileikaríkari. Þetta er eitthvað sem við þurfum að laga. Við þurfum virkilega að taka þetta fyrir, við þurfum að kenna krökkunum okkar að spila leikinn á réttan hátt,“ sagði Bryant en ljóst er að ummælin eru afar áhugaverð í ljósi yfirburða bandarískra körfuboltamanna í gegnum tíðina.
Bryant skellir skuldinni á AAU (e. Amateur Athletic Union) samtökin í Bandaríkjunum en þau eru samtök sem eiga að stuðla að upphefð og þróun byrjenda í íþróttinni
„AAU körfuboltasamtökin. Hræðilegu og ömurlegu AAU körfuboltasamtökin. Þau eru heimskuleg. Þau kenna ekki krökkunum okkar að spila körfubolta á neinn hátt og við sitjum oftar en ekki uppi með stóra leikmenn sem gera alls konar kúnstir en kunna ekki einu sinni að dekka. Þeir kunna ekki grunnatriði leiksins,“ sagði Bryant.
Bryant fæddist í Fíladelfíu í Bandaríkjunum en ólst upp frá sex ára aldri í Evrópu, þar á meðal á Ítalíu þar sem faðir hans, Joe Bryant var atvinnumaður í körfubolta.
„Ef þú er takmarkaður leikmaður, en veist þín takmörk þá geturu orðið frábær leikmaður. Þú veist hvað þú getur og hvað þú getur ekki. Í Bandaríkjunum er þetta stórt vandamál af því að við erum ekki að kenna leikmönnum að spila allar hliðar körfuboltans. Þetta er ástæðan fyrir því að við höfum Pau og Marc Gasol og þetta er ástæðan fyrir því að 90% af leikmannahópi [San Antonio] Spurs eru evrópskir,“ sagði Bryant.
Bryant er þakklátur fyrir það að hafa fengið sína körfuboltamenntun annars staðar en í Bandaríkjunum og segist geta gert hluti í leiknum sem hann hefði annars ekki getað.
„Ég hefði líklega ekki getað rekið boltann með vinstri og skotið með vinstri svo ekki sé talað um fótavinnuna,“ sagði Bryant en hann var þjálfaður í Evrópu af mörgum frábærum þjálfurum eins og Tex Winter og Red Auerbach.
Bryant hefur lausnina á vandamálinu á reiðum höndum.
„Kennið leikmönnum leikinn snemma og hættið að dansa í kringum þá eins og þeir séu gullkálfar,“ sagði Bryant.