Dagur Kár Jónsson, leikmaður Stjörnunnar, var skiljanlega sáttur eftir að Stjörnumenn tryggðu sér sæti í úrslitaleik bikarkeppninnar í körfuknattleik karla, en boðið var upp á hörkuleik í undanúrslitum þar sem liðið lagði Skallagrím, 102:97.
„Þetta var mjög góður leikur. Skallagrímur spilaði frábærlega en við vorum bara aðeins betri. Við vorum með yfirhöndina allan leikinn en gátum aldrei slakað á, þeir veittu okkur fulla keppni allan tímann,“ sagði Dagur Kár við mbl.is eftir leikinn. Borgnesingar eru neðstir í deildinni en Dagur segir Stjörnuna hafa passað sig að vanmeta ekki andstæðinginn.
„Nei alls ekki, við vitum að þeir eru með mjög sterkan heimavöll hérna í Borgarnesi. Þessir sveitalúðar, ef ég má kalla þá það, eru kolvitlausir svo við vissum að þetta yrði hörkuleikur,“ sagði Dagur Kár, en nánar er spjallað við hann í meðfylgjandi myndskeiði.