Landsliðsmaðurinn Pavel Ermolinskij, lykilmaður í liði Íslandsmeistara KR í körfuknattleik, fór í segulómskoðun á mánudaginn vegna lærmeiðslanna sem hann varð fyrir í bikarúrslitaleiknum gegn Stjörnunni um næstsíðustu helgi.
Niðurstöðurnar liggja ekki fyrir og því er enn óljóst hvers eðlis, eða hversu alvarleg meiðsli Pavels eru. Sjálfur sagðist Pavel telja að vöðvi aftan í læri gæti hafa rifnað, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í síðustu viku.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær ekki reikna með því að Pavel kæmi við sögu í þeim þremur leikjum sem liðið á eftir í deildakeppninni. Pavel hefur ekki æft með KR-liðinu eftir bikarúrslitaleikinn og KR-ingar ætla ekki að taka neina áhættu varðandi heilsufar hans, fyrr en í fyrsta lagi í úrslitakeppninni. „Vonandi getur hann leikið með okkur þegar úrslitakeppnin hefst en ef ekki þá verðum við að bregðast við því,“ sagði Finnur en lið hans hefur þegar tryggt sér efsta sæti deildarinnar og þar með heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.