Andstæðingar Íslands á EM í körfuknattleik í kvöld verða Spánverjar. Evrópumeistararnir frá því fyrir fjórum árum og silfurlið síðustu Ólympíuleika. Viðureign liðanna hefst í Berlín klukkan 19.
Spánverjar töpuðu fyrir Serbíu, sem Ísland tapaði fyrir í gær, í fyrsta leik sínum 70:80. Þá kom öruggur sigur gegn Tyrkjum 104:77 og virtist þá spænska vélin komin í gang. En Spánverjarar hikstuðu aftur gegn Ítölum í gærkvöldi. Ítalía sigraði 105:98 og Spánverjar mega því ekki við því að misstíga sig gegn Íslandi.
Morgunblaðið spurði Finn Frey Stefánsson, annan aðstoðarþjálfara Íslands, út í spænska liðið í gær. „Við lendum í því að tvö af sterkustu liðum heims eru í okkar riðli, Serbía og Spánn. Serbar urðu í öðru sæti á HM í fyrra og Spánn hefur verið á toppnum í tíu ár. Þrátt fyrir að Spánverja vanti stjörnur eins og Marc Gasol, Ricky Rubio og Jose Calderon þá eru þeir engu að síður gríðarlega vel mannaðir. Liðið er eins og díselvél sem er að hitna, miðað við hvernig þeir slátruðu Tyrkjunum. Við eigum gríðarlega erfitt verkefni fyrir höndum en við mætum til leiks með opnum huga og ætlum ekki að leggjast niður fyrir einum eða neinum.“
Ef horft er til þeirra þriggja liða sem Ísland hefur þegar mætt í keppninni segir Finnur leikstíl spænska liðsins líkjast mest leikstíl þess serbneska.
„Það má kannski segja að þeir spili svipað og Serbarnir. Spila flæðandi körfubolta og setja upp margar hindranir. Þeir eru með Pau Gasol, Nikola Mirotic og Felipe Reyes undir körfunni. Manni finnst Gasol vera stór í NBA en hérna er hann bara fjall eins og Hafþór (Sterkasti maður Evrópu). Gríðarlega erfitt verður að eiga við hann undir körfunni enda hafa liðin hér verið í bölvuðu basli með hann. Auk þess eru Spánverjar með reynda bakverði úr spænsku deildinni og liðið er því gríðarlega gott,“ sagði Finnur.