Bonneau sleit aftur hásin

Stefan Bonneau í leik gegn KR í fyrra.
Stefan Bonneau í leik gegn KR í fyrra. mbl.is/Golli

Stefan Bonneau er sagður hafa slitið hásin í annað sinn á innan við ári en hann fór meiddur út af í Njarðvík í kvöld. 

Netmiðillinn Karfan.is fullyrðir þetta og segist hafa fyrir því heimildir úr herbúðum Njarðvíkur. Um er að ræða hægri fótinn en Bonneau sleit hásin á þeim vinstri fyrir keppnistímabilið. 

Bonneau lék í liðlega þrjár og hálfa mínútu í kvöld þegar Njarðvík tapaði fyrir Stjörnunni 70:82 en haltraði út af í fyrri hálfleik. 

Bonneau er nýbyrjaður að beita sér á nýjan leik eftir að hafa farið í endurhæfingu hérlendis í vetur. Bati hans hefur þótt skjótur miðað við alvarleika meiðslanna en samkvæmt fréttum kvöldsins hefur nú hinn fóturinn gefið sig. Bonneau hafði verið á skýrslu undanfarið en í kvöld kom hann í fyrsta skipti við sögu í mótsleik en hann hafði spilað einhverja æfingaleiki. 

Eins og íþróttaáhugamenn þekkja eru Njarðvíkingar þó ekki án bandarísks leikmanns því með liðinu leikur Jeremy Atikonson. Hann lét þó ekki mjög til sín taka í kvöld, skoraði 11 stig og tók 6 fráköst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert