Darrel Lewis hefur ákveðið að leika eitt tímabil til viðbótar í Dominos-deildinni í körfubolta áður en hann leggur skóna á hilluna. Þessi fertugi bandaríski leikmaður, sem fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2004, hefur leikið með Tindastóli síðustu tvö tímabil. Hann kveðst ekki útiloka að spila annars staðar á lokatímabili sínu.
„Ég ætla að taka eitt tímabil í viðbót. Ég hef ekki tekið ákvörðun um hvar það verður ennþá, en ég ætla að taka eitt skipti í viðbót. Næsta tímabil verður hins vegar pottþétt mitt síðasta á ferlinum,“ sagði Darrel við Morgunblaðið.
Fleiri leikmenn Tindastóls liggja undir feldi, nú þegar tímabilinu er lokið hjá liðinu, og íhuga stöðu sína. Leikstjórnandinn ungi, Pétur Rúnar Birgisson, er þar á meðal en hann gæti verið á leið út fyrir landsteinana.
Sjá nánar umfjöllun um Tindastól í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.