Haukar verða áfram án Kára Jónssonar þegar þeir etja kappi við Íslandsmeistara KR í fjórða úrslitaleik liðanna í Dominos-deild karla í körfuknattleik í Schenker-höllinni að Ásvöllum í kvöld.
Kári varð fyrir meiðslum í fyrsta úrslitaleiknum og hefur ekki verið með í síðustu tveimur leikjum liðanna.
„Kári er miklu betri, en hann er ekki leikfær. Ef til oddaleiksins kemur á laugardaginn er möguleiki á að hann geti verið með. Við erum vanir að spila án einhverra lykilmanna og það verður áfram þannig,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, við Morgunblaðið í gærkvöld, en Haukar eru 2:1 undir í einvíginu, sem þýðir að KR getur orðið Íslandsmeistari í kvöld.